KÖRFUBOLTI

FRÉTTIR

Fréttir

02 Sep, 2024
Þórir Guðmundur Þorbjarnarson, oft þekktur undir nafninu Tóti Túrbó, er kominn heim í KR og semur við körfuknattleiksdeild KR til næstu tveggja ára. Þetta var tilkynnt á fréttamannafundi á Meistaravöllum fyrir helgi. Við sama tilefni var tilkynnt um framlengingu á samningi KR körfu við Nike á Íslandi til næstu tveggja ára. Þóri þarf ekki að kynna frekar fyrir KR-ingum né körfuboltaunnendum. Hann er uppalinn í KR, lék með KR upp alla yngri flokka og upp í meistaraflokkinn. Hann lék sinn fyrsta meistaraflokksleik fyrir KR aðeins 16 ára gamall. Þórir varð þrisvar sinnum Íslandsmeistari og tvisvar bikarmeistari með KR á árunum 2014-2017. Þórir hélt út til Bandaríkjanna í háskóla og spilaði með Nebraska á árunum 2017 til 2021. Þórir gekk til liðs við KR vorið 2021 og spilaði með liðinu í úrslitakeppninni það árið. Þórir hóf tímabilið 2021-2022 með KR en á miðju tímabili gekk hann til liðs við Landstede Hammers í Hollandi. Tímabilið eftir spilaði Þórir með Oviedo CB á Spáni og í fyrra gekk Þórir til liðs við Tindastól hér heima. En nú er Þórir kominn aftur heim í KR og semur til næstu tveggja ára. Þórir er 26 ára gamall og á að baki 29 A-landsleiki fyrir Ísland. Þórir Guðmundur Þorbjarnarson, leikmaður KR: “Ég er mjög ánægður að vera ganga aftur til liðs við KR. Hér ólst ég upp og finnst best að vera. Það er verið að byggja upp flott lið af heimastrákum og er ég spenntur að taka þátt í því og þeim verkefnum sem framundan eru. KR er og verður alltaf stærsti klúbbur á Íslandi og ég hlakka til að sjá alla KR-inga í stúkunni í vetur.” Jakob Örn Sigurðarson, þjálfari meistaraflokks karla: "Það hefur verið ákveðið markmið hjá okkur að fá til okkar uppalda KR-inga sem voru að spila annars staðar. Tóti hefur sýnt að hann er einn af albestu leikmönnum deildarinnar og því gríðarlega stórt og mikilvægt fyrir okkur að fá hann heim í KR. Bæði út af hans hæfileikum sem körfuboltamanni og að hann er KR ingur í gegn. Körfuboltalega er hann mjög hæfileikaríkur og fjölhæfur leikmaður sem mun gera mikið fyrir liðið. Ásamt því að ég tel að hann sé á þeim stað á ferlinum að vera leiðtogi í sínu liði og verður hrikalega skemmtilegt að sjá hann aftur í KR-treyjunni." Egill Ástráðsson, formaður körfuknattleiksdeildar KR: “Við hjá körfuknattleiksdeild KR erum gífurlega stolt og ánægð með hafa náð samkomulagi við Þóri. Þórir er eins og allir vita einn besti körfuboltamaður okkar Íslendinga og hann er einn harðasti KR-ingur sem fyrirfinnst. Þannig að það var alveg ljóst að eftir að við náðum markmiðum okkar um að fara beint aftur upp um deild síðasta vor, þá lögðum við mikið kapp á að fá hann til liðs við okkur á ný sem og aðra uppalda KR-inga sem við höfum samið við í sumar.” KR karfa og Nike til næstu tveggja ára Á fréttamannafundinum var einnig tilkynnt að KR karfa og Nike á Íslandi hafa framlengt samstarfssamning sinn til næstu tveggja ára. Allir flokkar KR körfu munu spila í Nike búningum næstu tvö árin hið minnsta.
27 Aug, 2024
Eins og í fyrra þá munum við bjóða upp á leikskólahóp í körfubolta í vetur fyrir börn fædd 2019-2020. Æfingarnar fara fram í KR heimilinu á laugardögum milli kl. 9:45 og 10:30. Þjálfari verður Gunnhildur Bára Æfingar hefjast laugardaginn 7. september. Skráning er hafin á abler .
Eftir Sonja Hlín Arnarsdóttir 01 Aug, 2024
Gengið hefur verið frá ráðningu nýs framkvæmdastjóra Knattspyrnufélags Reykjavíkur. Aðalstjórn KR hefur náð samkomulagi við Pálma Rafn Pálmason um að taka við starfi framkvæmdastjóra félagsins þegar tímabundinn samningur hans við knattspyrnudeild félagsins rennur út eftir tímabil. Aðalstjórn þakkar Bjarna Guðjónssyni, fráfarandi framkvæmdastjóra, kærlega fyrir hans störf og óskar honum velfarnaðar í nýju starfi.  Pálmi Rafn er KR-ingum að góðu kunnur enda notið starfskrafta hans á ýmsum sviðum á undanförnum árum. Pálmi Rafn gjörþekkir félagið enda bæði leikið fyrir það, þjálfað og starfað. “Ég er afskaplega glöð að Pálmi Rafn hafi ákveðið að taka að sér starf framkvæmdastjóra félagsins og hlakka mikið til samstarfsins við hann. Hann hefur unnið afskaplega gott starf í mörg ár fyrir félagið og frábært að fá hann til þess að taka við af Bjarna Guðjónssyni, sem framkvæmdastjóra Knattspyrnufélags Reykjavíkur.” Þórhildur Garðarsdóttir, formaður Knattspyrnufélags Reykjavíkur. Í framhaldi af tilkynningu aðalstjórnar er tilkynning frá knattspyrnudeild KR. Óskar Hrafn Þorvaldsson, yfirmaður knattspyrnumála í KR, hefur að beiðni Pálma Rafns Pálmasonar, þjálfara meistaraflokks, komið inn í þjálfarateymi liðsins og mun hjálpa liðinu í baráttunni sem fram undan er. Óskar Hrafn mun að tímabili loknu taka við starfi þjálfara meistaraflokks karla ásamt því að gegna starfi yfirmanns knattspyrnumála. Kynnt verður um ráðningu yfirþjálfara yngri flokka á næstu misserum. Óskar tekur strax til starfa og verður með liðinu í næsta leik er við sækjum HK menn heim á miðvikudaginn kemur
Eftir Sonja Hlín Arnarsdóttir 14 Jun, 2024
Dregið var í happdrætti KR drengja í 2010 árgangnum í knattspyrnu og körfubolta. 125 vinningar voru dregnir út og geta vinningshafar nálgast þá í KR heimilinu miðvikudaginn 19. júní milli kl. 17–19. Drengirnir eru nú á fullu að undirbúa sig fyrir knattspyrnumót í Gautaborg og körfuboltabúðir í Serbíu. Við þökkum öllum kærlega fyrir stuðninginn. Vinningaskrá:
Eftir Sonja Hlín Arnarsdóttir 13 Jun, 2024
Bjarni Guðjónsson, framkvæmdastjóri KR, lætur af störfum að eigin frumkvæði í lok ágústmánaðar og hverfur þá til annarra starfa. Bjarni hefur gegnt starfi framkvæmdastjóra síðan árið 2021. Ráðningarferli nýs framkæmdastjóra bíður nú aðalstjórnar en þegar verður hafist handa við þá vinnu. Aðalstjórn KR þakkar Bjarna kærlega fyrir allt hans starf fyrir félagið á liðnum árum.
Eftir Sonja Hlín Arnarsdóttir 22 May, 2024
Nú á dögunum var öllum iðkendum KR fædd 2008 og 2009 boðið á fyrirlestur hjá Ásdísi Hjálmsdóttur. Þar fór Ásdís yfir hvernig hægt er að setja sér markviss markmið, haft rétt hugarfar í keppni, hvernig takast á við meiðsli og hvernig á að samræma íþróttir og nám. Ásdís deildi reynslu sinni og þeim aðferðum sem hún nýtti sér til að komast á þrenna Ólympíuleika og klára doktorspróf samtímis. Við þökkum Ásdísi kærlega fyrir frábæran fyrirlestur sem skilaði miklu til iðkenda.
Eftir Sonja Hlín Arnarsdóttir 17 May, 2024
Við minnum á að skráning er hafin í körfuboltabúðir KR fyrir sumarið. Búðirnar eru fyrir börn fædd frá 2007 til 2017. Skráning fer fram inni á Abler. Körfuboltabúðirnar hefjast 10. júní og lýkur 5. júlí. Jakob Örn Sigurðarson, þjálfari meistaraflokks karla hefur yfirumsjón með búðunum en með honum verða Helgi Már Magnússon, Gunnar Ingi Harðarson og Hörður Unnsteinsson. Búðirnar verða alla virka daga á umræddu tímabili og skráð er í viku í senn inni í Abler. Skráning hér: https://www.abler.io/shop/kr/korfubolti Börn fædd 2013 til 2017 Frá klukkan 9 til 12 með möguleika á gæslu til klukkan 15. Jakob Örn Sigurðarson þjálfari meistaraflokks karla mun þjálfa þennan hóp. Börn fædd 2011 til 2012 Frá klukkan 13:30 til 15:30 og er æfingunum skipt upp í körfuboltaæfingu og styrktaræfingu. Helgi Már Magnússon mun sjá um körfuboltaæfingarnar. Helgi hefur mikla reynslu af körfubolta bæði sem leikmaður og þjálfari. Hann hefur þjálfað meistaraflokk og þjálfaði í vetur 7.flokk drengja hjá KR. Gunnar Ingi Harðarson mun sjá um styrktaræfingarnar. Gunnar hefur verið styrktarþjálfara meistaraflokka KR seinustu tvö tímabil og var einnig með yngri flokka okkar í styrktaræfingum í vetur við góðan árangur. Börn fædd 2007 til 2010 Frá klukkan 16:30 til 18:30 og er æfingunum skipt upp í körfuboltaæfingu og styrktaræfingu. Helgi mun sjá um körfuboltaæfingarnar fyrir strákana og Hörður Unnsteinsson fyrir stelpurnar. Hörður hefur þjálfað meistaraflokk kvenna og yngri flokka hjá okkur seinustu tímabil og átt stóran þátt í því að kvennakarfan í KR er á mikilli uppleið og margar efnilegar stelpur að skila sér í meistaraflokk. Skráning hér: https://www.abler.io/shop/kr/korfubolti 
Eftir Sonja Hlín Arnarsdóttir 03 May, 2024
Á aðalfundi félagsins sem haldinn var í félagsheimili KR í gær voru þau Fjóla Gerður Gunnarsdóttir, körfuknattleiksdeild og Eiríkur Logi Gunnarsson, borðtennisdeild valin íþróttafólk KR. Fjóla Gerður Gunnarsdóttir er 17 ára gömul og þrátt fyrir ungan aldur var hún að ljúka sínu öðru tímabili í meistaraflokki. Fjóla var lykilleikmaður í meistaraflokki á ný yfirstöðnu tímabili, spilaði alla leiki KR í deild, bikar og úrslitakeppni. Hún var með 12 stig og 6 fráköst að meðaltali í leik í vetur. Fjóla varð Íslandsmeistari síðasta vor með 11. flokki stúlkna í KR. Fjóla var í lokahópi U18 ára landsliðs Íslands síðasta sumar og spilaði á EM og NM. Fjóla var nýlega valin í lokahóp U18 fyrir landsliðsverkefni sumarsins. Eiríkur Logi Gunnarsson varð Íslandsmeistari í flokki 16-18 ára í einlíðaleik og tvíliðaleik. Einnig varð hann Íslandsmeistari í 1. flokki karla ásamt því að verða Íslandsmeistari með KR í 2. deild karla. Þið eruð vel að þessu komin og sannar fyrirmyndir fyrir yngri iðkendur. Til hamingju Fjóla og Eiríkur.
Eftir Sonja Hlín Arnarsdóttir 22 Apr, 2024
Aðalfundur körfuknattleiksdeildar KR var haldinn í félagsheimili KR þann 11. apríl sl. Á dagskrá voru hefðbundin aðalfundarstörf og stjórnarkjör. Fundarstjóri var Þórhildur Garðarsdóttir og fundarritari var Sigríður Ólafsdóttir. Á fundinum var ljóst að formaður deildarinnar Ellert Arnarsson og Aron Ívarsson varamaður í stjórn hyggðust ekki gefa kost á sér til formlegra stjórnarstarfa í bili og hlutu þeir einlægar þakkir frá deildinni fyrir störf sín í þágu félagsins auk hvatningar til áframhaldandi góðra verka en báðir starfa þeir í ráðum og nefndum á vegum körfunnar. Ný stjórn körfuknattleiksdeildar tók til starfa á fundinum og hlutu eftirtaldir kosningu í hana: Egill Ástráðsson formaður Björn Þorláksson Gunnhildur Bára Atladóttir Hjalti Már Einarsson Matthías Orri Sigurðarson Sigríður Ólafsdóttir Sæunn Stefánsdóttir Einnig voru eftirtaldir kosnir varamenn: Guðjón Böðvarsson Ingimar Guðmundsson Soffía Hjördís Ólafsdóttir Þorbjörg Andrea Friðriksdóttir Illugi Steingrímsson tók sæti í afreksráði deildarinnar. Næsti leikur hjá meistaraflokki kvenna er í kvöld en stelpurnar leika oddaleik gegn Aþenu í Austurbergi. Ný stjórn hvetur KR-inga til þess að fjölmenna á þann leik. Áfram KR. 
Eftir Sonja Hlín Arnarsdóttir 03 Apr, 2024
Aðalfundur körfuknattleiksdeildar KR verður haldinn í félagsheimili KR fimmtudaginn 11. apríl kl. 17:00. Á dagskrá eru hefðbundin aðalfundarstörf, skv lögum félagsins. Framboðsfrestur til stjórnar rennur út á miðnætti 8. apríl, framboðum skal skila til framkvæmdarstjóra félagsins, Bjarna Guðjónssonar á bg@kr.is Stjórnin.
Lesa meira
Share by: