USA Cup Gold sigurvegarar
27. júlí 2023

17. júlí síðastliðinn var merkisdagur í lífi 3.flokks kvenna í Gróttu/KR, en þá héldu þær til Bandaríkjanna til að taka þátt í USA Cup í Minnesota. Spennan lá í loftinu þegar þær stigu upp í rútuna við KR-heimilið og eftirvæntingin og stemmningin leyndi sér ekki enda einstaklega flottur hópur að leggja upp í spennandi ferð. Þrátt fyrir langt ferðalag stóðu stelpurnar sig einstaklega vel og komu á heimavistina við Háskólann í Minnesota að kvöldi, vel þreyttar, en alltaf með bros á vör.
USA Cup er stórt og vinsælt mót þar sem yfir 1.200 lið frá öllum heimshornum taka þátt. Stelpurnar voru með tvö lið á mótinu og lið 1 átti fyrsta leik strax kl 09:00 morguninn eftir svo vekjaraklukkurnar stóðu vaktina þá nóttina eins og næstu nætur á eftir. Stelpurnar létu það ekki á sig fá og mættu galvaskar í fyrsta leik á móti Twin Cities, sem þær unnu mjög sannfærandi 9-0. Lið 2 stóð sig ekki síður vel þennan fyrsta dag með glæsilegum 10-1 sigri á móti Minnesota United. Það er því óhætt að segja að stelpurnar hafi stimplað sig rækilega inn í mótið strax frá upphafi. Næstu daga mættu þær fleiri liðum frá Ameríku, en einnig liðum frá Noregi og Hawai. Eins og þeim einum er lagið lögðu þær sig fram í alla sína leiki og uppskáru eftir því þrátt fyrir að vera aðeins með einn varamann í hvoru liði og að spila við allt aðrar aðstæður en þær eru vanar, þ.e. í miklum hita og raka. Vatn og Gatorade sinnti stóru hlutverki við hliðarlínuna og kaldar vatnssturtur í öllum pásum gerðu gæfumuninn. Það má því segja að frammistaðan hafi verið enn meira þrekvirki fyrir okkur Íslendingana, en lið 1 vann alla sína leiki á mótinu og endaði sem USA Cup Gold meistarar 2023 í 16 ára flokki með markatöluna 28-3. Lið 2 vann sína leiki í 16 ára Silver flokki fram að 8-liða úrslitum, þar sem það mætti sterku liði Fylkis. Þær voru aðeins hársbreidd frá sigri í þeim leik, en töpuðu í framlengingu 0-1 eftir frábæra frammistöðu og enduðu með markatöluna 15-3.
Auk hetjulegrar frammistöðu á mótinu sjálfu voru stelpurnar til fyrirmyndar utan vallar einnig. Bros, hlátur og skemmtun einkenndi hópinn og ýmislegt var brallað þegar tími gafst, en stelpurnar skelltu sér m.a. í Twin Cities Premium Outlets að versla, Mall of America, í bíó á Barbie, á Cheesecake factory og ekki má gleyma nokkrum ferðum í Target og á McDonalds. Þær upplifðu einnig óvænta rauða veðurviðvörun, sem var í þetta sinn ekki vegna íslensks ofsaveðurs heldur vegna eldingahættu. Sú veðurviðvörun seinkaði úrslitaleik liðs 1 um nokkrar klukkustundir, en stelpurnar létu það nú ekki slá sig út af laginu ekkert frekar en neitt annað.
Það má með sanni segja að þessi vikuferð hafi skapað stútfullar fjársjóðskistur af dásamlegum minningum fyrir stelpurnar allar en einnig fyrir þjálfara, farastjóra og þá foreldra sem fylgdu. Það er enginn vafi að þessi hópur á framtíðina fyrir sér og við erum öll virkilega stolt af þeim enda virkilega flottar fyrirmyndir allar sem ein.
Innilega til hamingju stelpur, þið eruð frábærar fyrirmyndir.