RAFÍÞRÓTTIR

FRÉTTIR

Fréttir frá Rafíþróttadeild KR

16. apríl 2025
Aðalfundur Knattspyrnufélags Reykjavíkur verður haldinn í félagsheimilinu þriðjudaginn 29. apríl kl. 17:00. Á dagskrá eru hefðbundin aðalfundarstörf, skv lögum félagsins. Framboðsfrestur til stjórnar er til miðnættis 24. apríl nk., framboðum skal skila til framkvæmdarstjóra félagsins, Pálma Rafns Pálmasonar, palmi@kr.is
16. febrúar 2025
Knattspyrnufélag Reykjavíkur er 126 ára í dag og því við hæfi að taka fyrstu skóflustungu af fjölnotaíþróttahúsi félagsins, sem við höfum beðið svo lengi eftir. Það voru iðkendur úr deildum félagsins sem tóku fyrstu skóflustunguna ásamt Þórhildi Garðarsdóttur, formanni KR, Einari Þorsteinssyni Borgarstjóra, Skúli Helgasyni formanni menningar- og íþróttaráðs Reykjavíkur og Árna Geir Magnússyni formanni byggingarnefndar félagsins. Við munum fljótlega setja inn upplýsingar um byggingafasa hússins og upplýsa ykkur um stöðuna reglulega fram að vígslu. Til hamingju með daginn allir KR-ingar
22. desember 2024
Sendum stuðningsmönnum, sjálfboðaliðum, iðkendum okkar og fjölskyldum þeirra okkar bestu óskir um gleðileg jól og gæfuríkt komandi ár um leið og við þökkum fyrir árið sem er að líða. Við hlökkum til ársins 2025 með ykkur. Njótið sem allra best - Minnum á að húsið er lokað til 2. janúar.
14. nóvember 2024
Aðventugleði KR kvenna verður haldið í félagsheimili KR þriðjudaginn 26. nóvember kl. 19:30. Konfekt, jólaglögg, söngur, upplestur og sölubásar. Eigum saman notalega kvöldstund í aðdraganda jólanna.
5. nóvember 2024
Lagningu nýs gervigrass er nú lokið og aðeins verið að ganga frá síðustu smáatriðum. Það er því ljóst að æfingar geta loks hafist síðar í vikunni. Gríðarlegt umbótamál fyrir KR, enda ljóst misserum saman að gamla gervigrasið var langt í frá fullnægjandi og í raun ónýtt. Mikilvægum áfanga í framkvæmdamálum Knattspyrnufélagsins náð. Öðrum gríðarlega mikilvægum áfanga var sömuleiðis náð í þessari viku þegar nýtt fjölnota íþróttahús KR var boðið út á Evrópska efnahagssvæðinu. Nýja húsið verður næstum 7000 fermetrar að stærð.  Það er því loksins komin alvöru hreyfing á framkvæmdamál Knattspyrnufélagsins sem er mikið fagnaðarefni. Stjórn og starfsmenn félagsins munu að sjálfsögðu halda áfram að fylgja framkvæmdamálunum eftir, því enn er því miður langt í land að aðstaðan verði með þeim hætti að við getum vel við unað – en þangað stefnum við að sjálfsögðu. Þórhildur Garðarsdóttir Formaður Knattspyrnufélags Reykjavíkur
Eftir Sonja Hlín Arnarsdóttir 1. ágúst 2024
Gengið hefur verið frá ráðningu nýs framkvæmdastjóra Knattspyrnufélags Reykjavíkur. Aðalstjórn KR hefur náð samkomulagi við Pálma Rafn Pálmason um að taka við starfi framkvæmdastjóra félagsins þegar tímabundinn samningur hans við knattspyrnudeild félagsins rennur út eftir tímabil. Aðalstjórn þakkar Bjarna Guðjónssyni, fráfarandi framkvæmdastjóra, kærlega fyrir hans störf og óskar honum velfarnaðar í nýju starfi.  Pálmi Rafn er KR-ingum að góðu kunnur enda notið starfskrafta hans á ýmsum sviðum á undanförnum árum. Pálmi Rafn gjörþekkir félagið enda bæði leikið fyrir það, þjálfað og starfað. “Ég er afskaplega glöð að Pálmi Rafn hafi ákveðið að taka að sér starf framkvæmdastjóra félagsins og hlakka mikið til samstarfsins við hann. Hann hefur unnið afskaplega gott starf í mörg ár fyrir félagið og frábært að fá hann til þess að taka við af Bjarna Guðjónssyni, sem framkvæmdastjóra Knattspyrnufélags Reykjavíkur.” Þórhildur Garðarsdóttir, formaður Knattspyrnufélags Reykjavíkur. Í framhaldi af tilkynningu aðalstjórnar er tilkynning frá knattspyrnudeild KR. Óskar Hrafn Þorvaldsson, yfirmaður knattspyrnumála í KR, hefur að beiðni Pálma Rafns Pálmasonar, þjálfara meistaraflokks, komið inn í þjálfarateymi liðsins og mun hjálpa liðinu í baráttunni sem fram undan er. Óskar Hrafn mun að tímabili loknu taka við starfi þjálfara meistaraflokks karla ásamt því að gegna starfi yfirmanns knattspyrnumála. Kynnt verður um ráðningu yfirþjálfara yngri flokka á næstu misserum. Óskar tekur strax til starfa og verður með liðinu í næsta leik er við sækjum HK menn heim á miðvikudaginn kemur
Eftir Sonja Hlín Arnarsdóttir 13. júní 2024
Bjarni Guðjónsson, framkvæmdastjóri KR, lætur af störfum að eigin frumkvæði í lok ágústmánaðar og hverfur þá til annarra starfa. Bjarni hefur gegnt starfi framkvæmdastjóra síðan árið 2021. Ráðningarferli nýs framkæmdastjóra bíður nú aðalstjórnar en þegar verður hafist handa við þá vinnu. Aðalstjórn KR þakkar Bjarna kærlega fyrir allt hans starf fyrir félagið á liðnum árum.
Eftir Sonja Hlín Arnarsdóttir 22. maí 2024
Nú á dögunum var öllum iðkendum KR fædd 2008 og 2009 boðið á fyrirlestur hjá Ásdísi Hjálmsdóttur. Þar fór Ásdís yfir hvernig hægt er að setja sér markviss markmið, haft rétt hugarfar í keppni, hvernig takast á við meiðsli og hvernig á að samræma íþróttir og nám. Ásdís deildi reynslu sinni og þeim aðferðum sem hún nýtti sér til að komast á þrenna Ólympíuleika og klára doktorspróf samtímis. Við þökkum Ásdísi kærlega fyrir frábæran fyrirlestur sem skilaði miklu til iðkenda.
Eftir Sonja Hlín Arnarsdóttir 2. janúar 2024
Kæru KR-ingar. Í upphafi nýs árs langar mig til þess að þakka fyrir allt það ómetanlega starf sem sjálfboðaliðar félagsins hafa unnið. Við vitum að starfsemi félagsins byggir ekki síst á velvild og þeim samtakamætti sem finna má innan KR fjölskyldunnar. Markmið KR fyrir komandi ár eru sem fyrr skýr, að gera KR að því stórveldi sem það er og hefur verið. Slíkt verkefni er langhlaup. Það vita fáir betur en KR-ingar. En ég heiti því gera það sem í mínu valdi stendur til þess að það takist. Á þessu ári á KR 125 ára afmæli og á því ári munum við taka fyrstu skóflustunguna að nýju húsi. Því miður hefur KR setið eftir, eitt Reykjavíkurfélaganna, þegar kemur að aðstöðumálum, en nú er það forgangsmál að lyfta grettistaki í þeim málum, jafnt sem í viðhaldi og nýframkvæmdum. Með sameiginlegu átaki tekst okkur allt, við höldum kát og full bjartsýni inn í nýtt ár.  Gleðilegt ár kæru KR-ingar og takk fyrir árið sem var að enda. Þórhildur Garðarsdóttir Formaður KR
Eftir Sonja Hlín Arnarsdóttir 22. nóvember 2023
Þann 28. nóvember nk. eru 50 ár frá stofnun KR Kvenna. Af því tilefni verður opið hús í Félagsheimili KR milli kl. 20-22 þann sama dag. Léttar veitingar í boði, söngur og samvera. Hlökkum til að sjá ykkur sem flest.
Lesa meira