Birgir Guðjónsson látinn
28. apríl 2025

Birgir Guðjónsson, góður vinur, leikmaður og félagi í starfinu fyrir gamla góða KR er látinn. Birgir var fæddur 16. apríl 1957, en lést að morgni 24. apríls sl. á líknardeild Landsspítalans. Hann var af traustum KR-ættum, dóttursonur Kristjáns L. Gestssonar formanns KR um árabil og eins helsta leiðtoga félagsins á fyrri hluta síðustu aldar. Birgir stundaði knattspyrnuæfingar hjá KR frá unga aldri og upp yngri flokkana. Hann þótti snemma efnilegur knattspyrnumaður enda hafði hann ekki langt að sækja hæfileikana.
Birgir lék fyrstu leiki sína í meistaraflokki sumarið 1976 og átti síðan nokkuð fast sæti á miðjunni í liðinu næstu árin fram á sumarið 1983, þegar hann lagði skóna á hilluna í kjölfar meiðsla. Það má segja að Birgir hafi verið einn af lykilleikmönnum meistaraflokks KR í kringum 1980. Birgir lék alls 133 leiki með meistaraflokki KR (89 í Íslandsmóti), og skoraði hann í þeim 14 mörk, (11 í Íslandsmóti). KR-liðið var ekki sigursælt á þessum árum en framlag Birgis skipti miklu máli fyrir KR til að halda sjó í harðri baráttu fyrir stöðu félagsins á Íslandsmótinu.
Birgir hélt áfram að hafa afskipti af knattspyrnunni í KR eftir að leikmannsferli hans lauk. Hann sat í meistaraflokksráði og síðan í stjórn knattspyrnudeildarinnar sem ritari á árunum 1991-1993 og lagði hjartað í störf sín fyrir KR. Þegar KR sleppti, þá var stærðfræðikennsla í Menntaskólanum í Reykjavík hans ær og kýr. Hann þjónaði nemendum MR dyggilega á því sviði um langt árabil.
Undanfarin 2 ár reyndust Birgi erfið, glíma við alvarleg veikindi tók á. Viljinn til sigurs í þeirri glímu var mikill – en fyrir rest hafði óvinurinn betur.
Birgir var kvæntur Guðrúnu Þórhallsdóttur, dósent í íslenskri málfræði, og eiga þau eina dóttur, Ragnheiði. KR sendir Guðrúnu og fjölskyldu hugheilar samúðarkveðjur á þessari erfiðu stundu. Megi góður guð vera með ykkur.