STEFNUR OG LÖG

Stefna KR

Á aðalfundi Knattspyrnufélags Reykjavíkur þann 9. maí 2007 var ný stefna KR samþykkt einróma.


Hlutverk KR

Knattspyrnufélag Reykjavíkur, KR, er samofið íslensku samfélagi, elsta íslenska knattspyrnufélagið og gegnir lykilhlutverki í íslenskri íþróttahreyfingu. KR starfrækir metnaðarfullt, faglegt og fjölbreytt íþróttastarf í knattspyrnu sem og öðrum greinum með heilbrigði og vellíðan að leiðarljósi og því markmiði að ná úrvals árangri í afreks- og uppeldisstarfi.


“Einu sinni KR-ingur allt KR-ingur” er lífssýn sem félagið ræktar meðvitað og skapar þannig mikil lífsgæði og eftirsóknarvert samfélag þar sem ríkir gleði og stolt.


Gildi KR

Í allri framgöngu, starfi og samskiptum sín á milli, við félaga og mótherja, í keppni, utan vallar og innan hafa KR-ingar eftirfarandi gildi að leiðarljósi


Metnaður: KR-ingar eru stoltir og hafa metnað til að vera í fararbroddi framsækinna íþróttafélaga og ná framúrskarandi árangri í öllu starfi félagsins.

Fagmennska: KR-ingar nota alltaf þá bestu menntun, hæfni og þekkingu sem til er á hverjum tíma í þjálfun, stjórnun og rekstri.

Virðing: KR-ingar vinna að jafnrétti kynjanna og koma ávallt fram af virðingu hvar sem þeir eru.

Gleði: Gleði, ánægja, skemmtilegur félagsskapur og jákvæð hvatning eru lykilatriði í starfi KR.



Framtíðarsýn – KR árið 2020

KR hefur á að skipa fjölda hæfra íþróttamanna, leiðtoga, stjórnenda og sjálfboðaliða og heldur miklum og góðum samskiptum við þúsundir skráðra félaga.

Uppeldisstarf félagsins dregur að sér nær öll börn í grunnskólum Vesturbæjar með sýnilegum árangri á vellíðan þeirra og höfðar auk þess sérstaklega til annarra barna og unglinga með mikinn metnað.


Afreksfólk KR er í fremstu röð, oftar meistarar en keppinautarnir og alltaf í baráttu um titla.


Aðalstöðvar KR við Frostaskjól eru hjarta Vesturbæjarins og miðstöð fjölbreyttrar starfsemi KR-samfélagsins. Keppnisumgjörð KR er sú eftirsóknaverðasta í landinu og félagið er með framúrskarandi æfingaaðstöðu víða á þjónustusvæði sínu.


Meira um markmið og leiðir, skipulag og framkvæmdaáætlun í stefnumótunarplagginu hér.


Aðalstjórn KR og stýrihópur stefnumótunar þakkar öllum þeim fjölmörgu KR-ingum sem komu með einum eða öðrum hætti að stefnumótunarvinnunni. Nú hefst næsta skref þ.e. að innleiða og framkvæma stefnuna.

KR-ingurinn

Knattspyrnufélag Reykjavíkur er um þessar mundir að innleiða KR-inginn í allar deildir félagsins. KR-ingurinn er kennsluskrá sem felur í sér skipulag þjálfunar á líkamlegri, félagslegri og sálfræðilegri færni iðkenda félagsins. Viðar Halldórsson, félagsfræðingur hefur haft veg og vanda að hugmyndafræði KR-ingsins.


Viðar í samvinnu við íþróttafulltrúa félagsins, stjórnarmenn og þjálfara búið til skipulag þjálfunar á félags- og sálfræðilegum þáttum starfsins. Það skipulag er byggt á þeirri hugmyndafræði að hægt sé að þjálfa og styrkja félagsfærni og sálfræðilega færni alveg eins og hægt er að þjálfa líkamlega færni iðkenda.


Íþróttaæfingar byggja á markvissri þjálfun líkamlegra eiginleika en ekki hefur verið unnið markvisst að því í íþróttafélögunum að styrkja þætti eins og félagsfærni, sjálfstraust og leiðtogahæfni svo einhverjir séu nefndir. KR-ingurinn er skref í þá átt og er ætlaður sem kennsluskrá fyrir líkamlega, félagslega og sálfræðilega þætti þjálfunar allra iðkenda félagsins.


Við megum ekki gleyma því að íþróttastarf snýst ekki einungis um keppni og sigra heldur er íþróttastarf uppeldisstarf og eiga íþróttafélögin að sinna einhvers konar uppeldishlutverki þar sem iðkendum eru kennd þau gildi og viðhorf sem samfélagið vill halda á lofti hverju sinni. Íþróttir eru kjörin vettvangur til að kenna unga fólkinu okkar þau gildi og viðhorf sem vænleg eru til árangurs í víðri merkingu þess orðs. Þau ungmenni sem eru í góðu líkamlegu formi, með sterkra félagsfærni og gott hugarfar eru líkleg til að ná árangri í hverju sem þau taka sér fyrir hendur, hvort sem það er inn á íþróttavellinum, í skólanum, vinnu eða á öðrum vígstövðum. Með innleiðingu KR-ingsins vill félagið því með markvissum hætti taka enn frekari samfélagslega ábyrgð á uppeldi æskunnar í Vesturbænum.


KR-ingurinn er leiðarvísir um áherslur og nálgun þjálfara á hverju aldursskeiði. Þjálfarar vita því hvaða áherslur á að leggja hverju sinni og hvaða leiðir eru líklegar til að styrkja iðkendur á öllum sviðum. Í KR-ingnum er einnig minnst á hlutverk félagsins sem og iðkenda og foreldra þeirra því með sameiginlegum áherslum allra þeirra sem koma að unga fólkinu er hægt að skapa því umhverfi sem ýtir undir metnað, sjálfstraust og trú þess að það geti staðið sig vel í því sem það tekur sér fyrir hendur sem og þau viðhorf og hegðun sem líkleg eru til árangurs.


Til að draga þetta saman þá eru helstu markmið KR-ingsins að stuðla að enn ánægðari iðkendum, draga úr brottfalli úr félaginu, auka almenna hæfni iðkenda sem og keppnislegan árangur til lengri tíma litið.


Innleiðing KR-ingsins er þegar hafin í knattspyrnudeild og handknattleiksdeild félagsins.


KR inginn má nálgast hér að neðan

KR-ingurinn

Lög KR

Hægt er að lesa netútgáfu af lögum KR

Skoða nánar

Fyrirmyndarfélag ÍSÍ

Hægt er að lesa netútgáfu af fyrirmyndarfélagi ÍSÍ

(Skýrslan opnast sem pdf í nýjum glugga)

Skoða nánar

Siðareglur KR

Hægt er að lesa netútgáfu af siðareglum KR

(Skýrslan opnast sem pdf í nýjum glugga)

Skoða nánar

Stefnumótun KR

Hægt er að lesa netútgáfu af stefnumótun KR 2019-2024

(Skýrslan opnast sem pdf í nýjum glugga)

Skoða nánar