Gauti Guðmundsson með sigur í Svíþjóð og besta árangur ferilsins
2. desember 2025

Góð ferð með landsliðinu í Storklinten
Karla landslið alpagreina stóð sig afar vel á FIS-móti í svigi í Storklinten í Svíþjóð og náði þar sínum sterkasta samanlagða árangri á tímabilinu. Eftir fyrri ferð voru Gauti Guðmundsson og Matthías Kristinsson báðir í baráttu um efstu sætin.
Gauti var þá með þriðja besta tímann og Matthías þann sjötta, sem skapaði liðinu frábæra stöðu fyrir seinni ferðina.
Í seinni ferðinni náði Gauti svo enn frekari hæðum, skíðaði hraðast allra og tryggði sér sigur í mótinu. Þetta var fyrsti sigur Gauta í FIS móti á erlendri grundu og jafnframt hans besti árangur til þessa þar sem hann gerði sína bestu FIS-punkta á ferlinum, 23, sem bætir stöðu hans á heimslistanum. Þess má geta að Gauti hefur áður unnið FIS-keppni á Ítalíu, en það mót var í junior-flokki og því vegur þessi árangur enn þyngra.
Pétur Reidar Pétursson, sem einnig er úr skíðadeild KR var með rásnúmer 57, og átti góða ferð og var í 33. sæti eftir fyrri ferð. Pétur Reidar lauk því miður ekki seinni ferðinni, en fyrri ferðin hans sýndi að hann er á réttri leið og verður mikilvægur liður í uppbyggingu vetrarins.
Heimildir:
https://www.ski.is/is/um-ski/frettir/gauti-gudmundsson-med-sigur-i-svithjod-og-besta-arangur-ferilsins






