Guðbjörg Vala komst í úrslitakeppnina í einliðaleik á EM unglinga

18. júlí 2025

Fyrst íslenskra stúlkna til að komast í úrslitakeppni á EM unglinga

Guðbjörg Vala Gunnarsdóttir komst í úrslitakeppnina í einliðaleik meyja 15 ára og yngri á EM unglinga, sem fram fer í Ostrava í Tékklandi. Að öllum líkindum er Guðbjörg Vala fyrsta íslenska stúlkan til að ná þessum árangri.

Í allt vann Guðbjörg Vala sjö leiki í einliðaleik á mótinu í liðakeppni og einstaklingskeppni. Hún vann leikmenn frá Búlgaríu, Englandi, Ísrael, Noregi og Skotlandi.

Guðbjörg Vala og Helena Árnadóttir mynduðu lið Íslands og höfnuðu þær í 29.-30. sæti eftir sigur á Noregi og Skotlandi. Íslenskt kvennalið hefur líklega aldrei náð ofar á þessu móti.

Helena vann einn einliðaleik og saman unnu þær stöllur tvo tvíliðaleiki.

Þriðji KR-ingurinn í unglingalandsliðinu var Lúkas André Ólason. Hann náði ekki að vinna leik að þessu sinni en tapaði leik í einliðaleik í oddalotu.