Guðrún Kristmundsdóttir látin
4. september 2025

KR-ingurinn Guðrún Kristmundsdóttir lést 1. september eftir erfið veikindi, 63 ára að aldri. Guðrún var fædd og uppalin í KR og hóf ung að árum að æfa með KR.
Guðrún var alla tíð ákafur stuðningsmaður félagsins og lét ekki sitt eftir liggja þegar kom að sjálfboðaliðastörfum. Guðrún gegndi margvíslegum störfum fyrir KR, hún sat í stjórn körfuknattleiksdeildar KR í sex ár, þar af fimm ár sem formaður deildarinnar. Á þeim fimm árum sem hún var formaður deildarinn varð karlalið félagsins Íslandsmeistari öll árin.
Guðrún var kosin í aðalstjórn KR árið 2020 og setið verið þar síðan. Síðustu tvö árin hefur hún jafnframt setið í framkvæmdastjórn félagsins.
Guðrún var kosin í stjórn Körfuknattleikssambands Íslands árið 2021 og aftur 2023 og var gjaldkeri stjórnar KKÍ þegar hún lést.
Þess ber einnig að geta að Guðrún rak Bæjarins Beztu Pylsur í meira en 30 ár og hefur fyrirtækið stutt dyggilega við starf körfuknattleiksdeildar KR allan þann tíma.
KR-ingar kveðja Guðrúnu með mikilli eftirsjá og kærum þökkum og sendum aðstandendum og vinum innilegar samúðarkveðjur.
F.h. Knattspyrnufélags Reykjavíkur
Þórhildur Garðarsdóttir
Formaður KR