Íþróttafólk KR árið 2025

30. apríl 2025

Á aðalfundi félagsins sem haldinn var í félagsheimili KR í gær voru þau Perla Jóhannsdóttir, körfuknattleiksdeild og Guðmundur Flóki Sigurjónsson, taekwondodeild valin íþróttafólk KR árið 2025.


Perla Jóhannsdóttir (f. 1996) ólst upp í körfunni í KR og lék sinn fyrsta meistaraflokksleik fyrir félagið árið 2012 þá 15 ára gömul. Perla hefur allan sinn feril leikið með KR og á þeim tíma myndað hornstein í liði meistaraflokks kvenna. Á liðnu tímabili var Perla fyrirliði liðsins sem tryggði sér þáttökurétt í efstu deild kvenna eftir glæstan sigur í umspilinu nú á dögunum.


Perla er fyrirmynd fyrir alla unga iðkendur í KR. Hún er hæfileikaríkur leikmaður og leiðtogi með risastjórt KR hjarta sem staðið hefur með uppeldisfélagi sínu í gegnum súrt og sætt með vinnusemi og elju að vopni. Perla Jóhannsdóttir er íþróttakona KR árið 2025.


Guðmundur Flóki Sigurjónsson (f. 2008) er í unglingaflokki (junior) 15 - 17 ára, en byrjaði á þessu ári að keppa í fullorðinsflokki með góðum árangri. Hann hefur verið í íslenska landsliðinu í bardaga síðan vorið 2023, nú undir stjórn breska þjálfarans Rich Fairhurst. Guðmundur Flóki náði þeim árangri á síðasta ári að verða Íslandsmeistari, Norðurlandameistari og Evrópumeistari smáþjóða. Auk þess sigraði hann sinn flokk á bikarmótum Taekwondosambands Íslands og fékk gull á Balkanbikarnum í Rúmeníu. Kom þessi góði árangur honum í 10. sæti evrópska styrkleikalistans. Hann keppti á alls átta alþjóðlegum mótum árið 2024, þar á meðal á heimsmeistaramóti unglinga í Kóreu, og sótti æfingabúðir í Noregi og Danmörku. Snemma á þessu ári vann hann svo Opna Slóveníumótið.


Guðmundur Flóki var valinn efnilegasti juniorkeppandi ársins 2024 af Taekwondosambandi Íslands og skrifaði undir afrekssamning við sambandið og taekwondodeild KR um að vinna saman að þátttökurétti á Ólympíuleikana í Los Angeles 2028.


Hann þjálfar iðkendur á öllum aldri hjá taekwondodeild KR og er mikil fyrirmynd. Framundan á þessu ári eru meðal annars fleiri alþjóðleg mót, æfingabúðir með breska landsliðinu og því norska, Evrópumeistaramót unglinga, Evrópumeistaramót smáþjóða og Evrópumót 21 árs og yngri. Guðmundur Flóki var valinn karl ársins hjá taekwondodeild KR og er íþróttamaður KR árið 2025.


Til hamingju Perla og Guðmundur Flóki!