Kona mótsins og fleiri gull
21. nóvember 2025

Bryndís Eir Sigurjónsdóttir sigraði svartbeltis junior flokk kvenna í bardaga á bikarmóti Taekwondosambands Íslands í október og var í kjölfarið valin kona mótsins. Glæsilegur árangur hjá Bryndísi.
Taekwondosamband Íslands hélt fyrsta bikarmót vetrarins nú um daginn og var venju samkvæmt keppt í bæði formum og bardaga. KR-ingar sendu 18 keppendur til leiks en mótið fór fram á heimavelli ÍR-inga. Helmingur KR-inga keppti í minior flokki sem er fyrir 11 ára og yngri og stóðu þau sig öll með stakri prýði í báðum keppnisgreinum.
Í cadet (12-14 ára) og junior (15-17 ára) flokkum er svo keppt um sæti og þar sigruðu Prasun og Bjartur sína flokka í poomsae (form), Daníel fékk silfur en Ari og Bryndís fengu brons á poomsae deginum. Þetta skilaði félaginu 15 stigum og 5. sæti af 8 félögum fyrir þennan hluta mótsins.
Í bardaga fengu Prasun, Þorlákur og Bryndís gull í sínum flokkum, Kári, Ómar og Kiljan silfur og Ari brons. Þetta skilaði félaginu 29 stigum og öðru sæti fyrir bardagahluta mótsins en eins og áður sagði hlaut Bryndís líka viðurkenningu sem kona mótsins.
Glæsilegur árangur og góðs viti fyrir keppnisveturinn.






