Minningarorð um Guðrúnu Kristinsdóttur
19. september 2025

Í dag fylgjum við KR-ingnum Guðrúnu Björk síðasta spölinn, en hún lést þann 1.september síðastliðinn eftir erfið veikindi. Guðrún var fædd og uppalin í KR og hóf ung að árum að æfa með félaginu. Guðrún var alla tíð ákaflega hliðholl sínu félagi og lagði mikið á sig til þess að geta orðið KR að sem bestu liði.
Guðrún gegndi hinum ýmsu störfum fyrir KR. Hún sat meðal annars í stjórn körfuknattleiksdeildarinnar í sex ár og þar af í fimm ár sem formaður deildarinnar. Guðrún átti stóran þátt í velgengni félagsins á þeim árum, og varð karlalið deildarinnar m.a. Íslandsmeistari fimm sinnum á þeim árum. Guðrún beitti sér einnig fyrir uppbyggingu á barna og unglingastarfi félagsins. Eins lét hún sig miklu varða uppbyggingu á kvennastarfi félagsins og lagði mikinn metnað í að byggja það upp.
Guðrún var kosin í aðalstjórn KR árið 2020 og sat þar til síðustu stundar. Síðustu þrjú árin hefur hún jafnframt setið í framkvæmdastjórn félagsins.
Sem eigandi Bæjarins beztu hefur Guðrún einnig verið einn öflugasti bakhjarl körfuknattleiksdeildarinnar í áratugi.
Guðrún var sæmd Stjörnu KR á 125 ára afmæli félagsins árið 2024.
Guðrún var kosin í stjórn Körfuknattleikssambands Íslands árið 2021 og aftur árið 2023 og var gjaldkeri stjórnar KKÍ þegar hún lést.
Í dag kveð ég ekki bara sterkan og góðan KR-ing heldur einnig kæra vinkonu. Við Guðrún kynntumst í KR og gáfum báðar kost á okkur í aðalstjórn nokkrum árum síðar. Þú varst minn helsti stuðningsmaður í einu og öllu, hvattir mig áfram og hafðir óbilandi trú á mér. Það var margt sem við ætluðum að gera og klára saman. Aðeins viku áður en þú fórst settumst við niður og ræddum framtíðarsýnina og hvað þyrfti að gera. Þetta átti ekki að fara svona, við ákváðum það í fyrrasumar úti í Lundi. Þú varst svo hrikalega dugleg og sterk að maður hafði meiri áhyggjur af því að þú keyrðir þig of hart því uppgjöf var ekki til í þinni orðabók. „Uppgjöf þekkir enginn hér“ átti svo vel við þig og þína framgöngu alla. Ég er óendalega þakklát fyrir að hafa kynnst þér, átt þig að í mínu horni. Við gátum alltaf hlegið saman og talað saman. Takk fyrir allt.
KR-ingar kveðja Guðrúnu með mikilli eftirsjá og kærum þökkum og sendum Baldri, Jónasi og öðrum aðstandendum og vinum innilegar samúðarkveðjur.
F.h. Knattspyrnufélags Reykjavíkur
Þórhildur Garðarsdóttir
Formaður KR