Nýtt fjölnota íþróttahús verður að veruleika!

26. október 2025

Loksins loksins!


Nýtt fjölnota íþróttahús verður að veruleika.


Mikil gleði og léttir ríkir í Vesturbænum eftir góðan dag í gær, þar sem strákarnir í fótboltanum stóðu sig mjög vel í síðasta leik tímabilsins. Það er einnig búið að vera ótrúlega gaman að fylgjast með þessum frábæru stuðningsmönnum sem við KR-inga búum að og má með sanni segja að uppgjöf þekkir enginn hér.


Og það er gaman að geta sagt frá því að fyrir helgina fengum við þau gleðitíðindi  þegar innkaupa- og framkvæmdaráð Reykjavíkurborgar samþykkti að ganga til samninga við Eykt ehf. um byggingu nýs fjölnota íþróttahúss KR við Frostaskjól.


Þetta eru frábærar fréttir og risastór áfangi fyrir alla KR-inga. Þetta er ekki bara bygging, þetta er framtíðin okkar sem er að rísa! Við höfum beðið lengi eftir þessari stund og þessi ráðstöfun er gríðarlega stórt skref fyrir félagið okkar. Nýja húsið verður um 6700 fermetrar að stærð og mun gjörbreyta æfingaaðstöðunni og styðja við metnaðarfullt starf okkar. Betri aðstaða þýðir fleiri og betri æfingar sem og gerir það að verkum að hægt verður að æfa inni allt árið, sem mun skila sér í auknum árangri og enn betra starfi fyrir yngri flokka okkar.


Við erum spennt fyrir framtíðinni, það verður gaman að fylgjast með áframhaldandi uppbyggingu á KR-svæðinu okkar á næstu árum.


Hlakka til að sjá ykkur á körfuboltaleikjunum í vetur, þið stuðningsfólk KR eruð driffjöðrin í starfinu ykkar stuðningur er okkur allt.



ÁFRAM KR!!


Fyrir hönd Knattspyrnufélags Reykjavíkur,

Þórhildur Garðarsdóttir, formaður