SKÍÐI

FRÉTTIR

Fréttir

16. apríl 2025
Aðalfundur Knattspyrnufélags Reykjavíkur verður haldinn í félagsheimilinu þriðjudaginn 29. apríl kl. 17:00. Á dagskrá eru hefðbundin aðalfundarstörf, skv lögum félagsins. Framboðsfrestur til stjórnar er til miðnættis 24. apríl nk., framboðum skal skila til framkvæmdarstjóra félagsins, Pálma Rafns Pálmasonar, palmi@kr.is
16. febrúar 2025
Knattspyrnufélag Reykjavíkur er 126 ára í dag og því við hæfi að taka fyrstu skóflustungu af fjölnotaíþróttahúsi félagsins, sem við höfum beðið svo lengi eftir. Það voru iðkendur úr deildum félagsins sem tóku fyrstu skóflustunguna ásamt Þórhildi Garðarsdóttur, formanni KR, Einari Þorsteinssyni Borgarstjóra, Skúli Helgasyni formanni menningar- og íþróttaráðs Reykjavíkur og Árna Geir Magnússyni formanni byggingarnefndar félagsins. Við munum fljótlega setja inn upplýsingar um byggingafasa hússins og upplýsa ykkur um stöðuna reglulega fram að vígslu. Til hamingju með daginn allir KR-ingar
16. febrúar 2025
Við lokuðum 125 ára afmælis ári félagsins með því að veita heiðursviðurkenningar KR. Að þessu sinni voru sjö sæmdir Stjörnu KR og tveir vor settir Heiðursfélagar KR. Stjarna KR Helgi Bjarnason - glíma Helgi gekk í glímudeild KR 1973 og hóf keppni ári síðar. Helgi vann til margra verðlauna og varð m.a. Íslandsmeistari 1989-1991 í sínum þyngdarflokki og skjaldarhafi Ármanns 1982. Fyrir utan langa keppnissögu hefur Helgi unnið mikið og ötullega að framgangi glímunnar bæði innan og utan KR. Helgi tók einnig þátt í að kynna og keppa í glímu fyrir utan landsteinana. Hann hefur sinnt stjórnunarstörfum í glímudeild KR samfleytt frá 1976, er enn að og er núverandi formaður deildarinnar. Helgi var einnig í stjórn glímusambandsins á sínum tíma. Kristinn Kjærnested - knattspyrna Kristinn Kjærnested er fæddur 1972. Hann lék knattspyrnu með KR upp yngri flokka félagsins. Strumpurinn eins og hann var oft kallaður á sínum yngstu árum þótti efnilegur til afreka í knattspyrnunni, en slæm meiðsli í 2. flokki 1991 í leik uppi á Skaga þar sem Íslandsmeistaratitillinn vannst ollu því að hann lagði knattspyrnuiðkunina á hilluna alltof snemma, þegar framtíðin átti að blasa við. Þegar skipulagsbreytingarnar voru gerðar á starfsemi knattspyrnudeildarinnar rétt fyrir aldamótin, var Kristinn kjörinn í nýja stjórn Rekstrarfélags KR á árunum 1999-2001. Rekstrarfélagið var síðan lagt niður, en þá tók hann sæti í stjórn KR-Sport ehf, á árunum 2001- 2006. Svo þegar KR-Sport var sett til hliðar var Kristinn kjörinn formaður knattspyrnudeildar KR og gegndi hann því starfi frá árinu 2008 fram í febrúar 2020, er hann gaf ekki kost á sér til endurkjörs. Enginn formaður hefur setið lengur í sögu knattspyrnudeildar KR. Tímabilið 1999-2020 var eitt hið sigursælasta í sögu KR. KR vann alls 7 Íslandsmeistaratitla karla á þessum árum og 5 sinnum varð KR bikarmeistari karla. Þá unnu konurnar einnig frækna sigra framan af þessu tímabili með 3 Íslandsmeistaratitla og 4 bikarmeistaratitla. Hlutur Kristins í þessum árangri var mikill. Stjórnunarhæfileikar hans ásamt djúpum skilningi á knattspyrnunni skiptu þar megin máli en ekki síður hæfileikinn að finna fjármagn til að standa undir rekstri deildarinnar, því að árangur í íþróttum kostar peninga í dag. Samstarf hans og Rúnars Kristinssonar, þjálfara meistaraflokks karla, lengst af á árunum 2010-2019, var rómað þegar titlarnir komu á færbandi. Stefán Haraldsson - knattspyrna Stefán Haraldsson er fæddur 1952. Stefán var ekki afreksmaður í íþróttum en skilaði KR síðar ómældum stuðningi í stjórnun knattspyrnudeildarinnar og við hin ýmsu fjáröflunarverkefni deildarinnar á áratugunum eftir 1980. Hann var kjörinn í stjórn deildarinnar í desember 1981 og tók við sem varaformaður haustið 1984. Gegndi hann því embætti til haustsins 1988, er hann var kjörinn formaður, en því embætti gegndi hann næstu 3 árin þ.e. til haustins 1991. Stefán hélt áfram að skipta sér af málefnum knattspyrnudeildarinnar og KR, eftir að formennskunni lauk, og voru orð hans og gerðir ávallt KR til góðs. Þá hefur hann aldrei hætt afskiptum af KR-flugeldum sem voru ein aðal tekjulind deildarinnar á seinni hluta níunda áratugarinns og langt fram yfir aldamótin. Enn þann dag í dag eru KR flugeldar fluttir inn undir nafni og í skjóli S. Árnason ehf, sem er fyrirtæki sem Stefán og fjölskylda hans hafa rekið um áratugi. Guðrún Kristmundsdóttir - karfa Guðrún er fædd og uppalin í KR og hefur gengt margvíslegum störfum fyrir KR í gegnum tíðina. Hún var t.a.m formaður körfuknattsleiksdeildarinnar í fimm ár þar sem karlaliðið vann öll árin Íslandsmeistaratitilinn. Guðrún hefur setið í aðalstjórn KR frá árinu 2020. Hún hefur rekið Bæjarins bestu pylsur í meira en 30 ár og hefur fyrirtækið stutt dyggilega við starf deildarinnar allan þann tíma. Kristján Stefánsson - skák Kristján Stefánsson var kosinn formaður Skákdeildar við stofnun deildarinnar árið 1999 og sinnti því ötullega starfi í 24 ár. Kristján er sterkur skákmaður sem meðal annars hefur unnið það afrek að gera jafntefli í fjöltefli við sjálfan Bent Larsen, sem var einn af sterkustu skákmönnum heims á árum áður. Afrek Kristjáns á skáksviðinu tengjast þó meira því að hafa stýrt skákdeild KR um langt skeið og verið öflugur stjórnarmaður eftir að formennskutíð hans lauk. Kristján hefur verið algjör lykilmaður í starfi skákdeildar frá upphafi og hefur jafnframt gert mun meira en að sinna hefðbundnum stjórnarstörfum. Hann hefur til dæmis einnig verið lykilmaður í fjáröflun deildarinnar frá upphafi. Frá stofnun hefur skákdeildin haldið úti reglulegum skákæfingum og alltaf tekið þátt í að skipuleggja margar skákferðir, bæði ferðir í æfingabúðir innanlands og í keppnisferðir til útlanda. Barnastarf deildarinnar eða oflugt og mætir Kristján á flestar barnaæfingar og segir krökkum til. Guðjón P. Ólafsson - skíði Guðjón æfði og keppti fyrir skíðadeild KR á árunum 1962-1970 og síðan þá hefur hann verið ómetanlegur stuðningsmaður deildarinnar og gengt fjölmörgum ábyrgðarstörfum deildarinnar. Guðjón spilaði stórt hlutverk við uppbyggingu í Skálafelli og einn af lykilmönnum í uppsetningu allra skíðalyftanna þar. Hann hefur einnig ávallt verið til taks vegna viðhalds á eignum félagsins okkar. Guðjón var formaður deildarinnar 1992-1996 og sat um árabil í aðalstjórn KR. Jóhannes Benediktsson - sund Jóhannes er fæddur 1957, fæddur og uppalinn í Safamýri en hefur verið mikill KR-ingur allar götur síðan hann flutti í Vesturbæinn snemma á áttunda áratug síðustu aldar ! Það skal það tekið fram að hann neitar öllum tengingum við Fram og sitt fyrra líf. Jóhannes kom fyrst inn í stjórn Sunddeildar KR árið 1994 og varð formaður sunddeildar í kjölfarið og sinnti því að mestu á árunum 1997-2016. Jóhannes byggði upp eina stærstu og sterkustu sunddeild landsins, hvort sem það sneri að sundskóla fyrir yngstu iðkendur, almenna kennslu fyrir allan aldur eða afreksstefnu. Deildin átti t.a.m. keppendur á öllum Ólympíuleikum frá 2004 til 2012. Jóhannes byggði upp stærsta sundmót Íslands, Gullmót KR sem er þekkt fyrir að bjóða upp á aðra upplifun en hafði þekkst áður á Íslandi. Jóhannes hefur ekki aðeins unnið mikið sjálfboðastarf fyrir sunddeildina, því hann var um tíma formaður Sundráðs Reykjavíkur, í stjórn sundsambands Íslands og svo var hann einnig í framkvæmdarstjórn KR frá 2006-2010. Heiðursfélagar KR Guðmundur Pétursson Guðmundur lék knattspyrnu með KR upp yngri flokka félagsins og eignaði sér fljótlega markvörsluna í þeim liðum sem hann lék í og þótti snemma efnilegur í markinu. Þá reyndi hann einnig töluvert fyrir sér í körfuknattleik og hafði alla burði til að ná langt þar, en knattspyrnan hafði þó alltaf forgang. Þegar Heimir Guðjónsson lagði markmannsskóna að mestu á hilluna hausið 1965 eftir slæm meiðsli var það Guðmundur sem tók við markvörslunni hjá KR næstu árin og stóð sig svo vel að hann var kominn í landsliðið að ári og lét þar 3 leiki. Guðmundur lék alls 79 leiki með meistaraflokki KR í knattspyrnu á árunum 1966-1973, en lagði þó skóna að mestu á hilluna sumarið 1970. Lögfræðinám fékk þá forgang hjá honum. Guðmundur varð einu sinni Íslandsmeistari í knattspyrnu 1968 og í tvígang varð hann bikarmeistari, 1966 og 1967. Guðmundur varð einnig tvisvar Íslandsmeistari í körfuknattleik, árin 1966 og 1974 og tvisvar sinnum bikarmeistari 1973 og 1974. Guðmundur sinnti þjálfun yngri flokka KR, aðallega 3. flokks, um langt árabil á sjörunda og áttunda áratugnum. Þá var hann aðstoðarþjálfari meistaraflokks þegar Tony Knapp tók að sér þjálfun KR og tók svo sjálfur við þjálfun meistaraflokks ásamt Ólafi Lárussyni árið 1976. Loks bjargaði hann KR haustið 1981 þegar hann fyllti í skarð Manfred Steves, sem var rekinn þegar fallið blasti við. Guðmundur hefur loks gengt hinum ýmsustu stjórnarstörfum fyrir knattspyrnuna í KR, félagið í heild og knattspyrnuhreyfinguna. Hann sat í stjórn knattspyrnudeildar á árunum 1969-1977 og 1980-1981. Þá var hann formaður rekstarafélags KR á árunum 2998-2000 þegar íslandsmeistaratitillinn vannst loks aftur, undir stjórn hans, og átti jafnframt sæti í stjórn KR-sports ehf. Hann sat í aðalstjórn KR, og var formaður KR-klúbbsins. Guðmundur var kosinn í stjórn KSÍ í árslok 1989, og sat þar í 5 ár sem varaformaður. Hann sat í áfrýjunardómstól UEFA og var einnig eftirlitsmaður. Ótalin eru þá víðtæk störf hans innanlands í laganefndum og dómstólum íþróttahreyfingarinnar og fundarstjórn á aðalfundum eða ársþingum KR og KSÍ í mörg ár. Guðmundur er handhafi heiðurskross KSÍ, heiðurskross ÍSÍ, ásamt gullmerkis KRR, sem eru æðstu heiðursviðurkenningar þessara samtaka, ásamt stjörnu KR. Guðmundur Pétursson var þungavigtarmaður í stjórnun KR og knattspyrnuhreyfingarinnar á undanförnum áratugum og í því að lyfta KR aftur á toppinn í íslenskri knattspyrnu um síðustu aldamót. Kolbeinn Pálsson Kolbeinn er nú þegar handhafi stjörnu KR síðan 2009 og er öllum KR-ingum og körfuknattsleiksunnendum landsins vel kunnur. Kolbeinn hefur tekið virkan þátt í starfi KR síðan á sjötta áratug síðustu aldar, sem leikmaður, þjálfari, stjórnarmaður, bakhjarl og dyggur stuðningsmaður. Þá lék hann 55 A-landsleiki á ferlinum. Þegar honum lauk var hann virkur í félagsstarfi ekki aðeins í KR, heldur m.a. sem formaður Körfuknattleikssambands Íslands á árunum 1988-1996. Loks er Kolbeinn í mjög fámennum hópi, þ.e. annar tveggja körfuknattleiksmanna sem hefur verið kjörinn Íþróttamaður ársins, ásamt félagasínum í KR, Jóni Arnóri Stefánssyni, en þann titil hlaut Kolbenn árið 1966. Við óskum nýkrýndum stjörnum KR og heiðursfélögum til hamingju með tilnefninguna um leið og við þökkum fyrir óeigingjörn störf í þágu félagsins.
10. febrúar 2025
KR-ingurinn Gauti Guðmundsson tók þátt í alþjóðlegu svigmóti í Koralpe í Austurríki dagana 4.-6. febrúar. Á stórsvigsmótinu sem fram fór þann 4. febrúar gerði Gauti sína bestu stórsvitspunkta á ferlinum. Þann 6. febrúar var Gauti aftur að keppa, eftir fyrri ferðina var Gauti í 18. sæti en í seinni ferðinni átti Gauti frábæra ferð og tók lang besta tímann sem skilaði honum fimmta sætinu með 26.58 FIS punkta, sem eru hans bestu á ferlinum. Við óskum Gauta til hamingju með frábæran árangur.
30. janúar 2025
KR-ingurinn Arnór Alex Arnórsson hefur verið valinn til að taka þátt í Vetrarólympíuhátíð Evrópuæskunnar sem fram fer í Batumi Georgíu dagana 8.-17. febrúar. Við eru gríðarlega stolt að eiga svona flottan fulltrúa á hátíðinni. Við óskum Arnóri Alex til hamingju með valið og vonum að hann eigi eftir að njóta sín á hátíðinni.
22. desember 2024
Sendum stuðningsmönnum, sjálfboðaliðum, iðkendum okkar og fjölskyldum þeirra okkar bestu óskir um gleðileg jól og gæfuríkt komandi ár um leið og við þökkum fyrir árið sem er að líða. Við hlökkum til ársins 2025 með ykkur. Njótið sem allra best - Minnum á að húsið er lokað til 2. janúar.
5. desember 2024
KR-ingurinn Gauti Guðmundsson náði sínum besta árangri á ferlinum þegar hann endaði í 2. sæti á svigmóti á Ítalíu í gær. Gauti var í 11. sæti eftir fyrri ferðina en átti frábæra seinni ferð og náði þá besta tímanum, og endaði samanlagt í 2. sæti mótsins eins og fyrr segir. Gauti fékk 28.51 FIS punkta fyrir mótið og hefur aldrei gert betur. Virkilega vel gert Gauti, innilegar hamingjuóskir.
14. nóvember 2024
Aðventugleði KR kvenna verður haldið í félagsheimili KR þriðjudaginn 26. nóvember kl. 19:30. Konfekt, jólaglögg, söngur, upplestur og sölubásar. Eigum saman notalega kvöldstund í aðdraganda jólanna.
5. nóvember 2024
Lagningu nýs gervigrass er nú lokið og aðeins verið að ganga frá síðustu smáatriðum. Það er því ljóst að æfingar geta loks hafist síðar í vikunni. Gríðarlegt umbótamál fyrir KR, enda ljóst misserum saman að gamla gervigrasið var langt í frá fullnægjandi og í raun ónýtt. Mikilvægum áfanga í framkvæmdamálum Knattspyrnufélagsins náð. Öðrum gríðarlega mikilvægum áfanga var sömuleiðis náð í þessari viku þegar nýtt fjölnota íþróttahús KR var boðið út á Evrópska efnahagssvæðinu. Nýja húsið verður næstum 7000 fermetrar að stærð.  Það er því loksins komin alvöru hreyfing á framkvæmdamál Knattspyrnufélagsins sem er mikið fagnaðarefni. Stjórn og starfsmenn félagsins munu að sjálfsögðu halda áfram að fylgja framkvæmdamálunum eftir, því enn er því miður langt í land að aðstaðan verði með þeim hætti að við getum vel við unað – en þangað stefnum við að sjálfsögðu. Þórhildur Garðarsdóttir Formaður Knattspyrnufélags Reykjavíkur
Eftir Sonja Hlín Arnarsdóttir 1. ágúst 2024
Gengið hefur verið frá ráðningu nýs framkvæmdastjóra Knattspyrnufélags Reykjavíkur. Aðalstjórn KR hefur náð samkomulagi við Pálma Rafn Pálmason um að taka við starfi framkvæmdastjóra félagsins þegar tímabundinn samningur hans við knattspyrnudeild félagsins rennur út eftir tímabil. Aðalstjórn þakkar Bjarna Guðjónssyni, fráfarandi framkvæmdastjóra, kærlega fyrir hans störf og óskar honum velfarnaðar í nýju starfi.  Pálmi Rafn er KR-ingum að góðu kunnur enda notið starfskrafta hans á ýmsum sviðum á undanförnum árum. Pálmi Rafn gjörþekkir félagið enda bæði leikið fyrir það, þjálfað og starfað. “Ég er afskaplega glöð að Pálmi Rafn hafi ákveðið að taka að sér starf framkvæmdastjóra félagsins og hlakka mikið til samstarfsins við hann. Hann hefur unnið afskaplega gott starf í mörg ár fyrir félagið og frábært að fá hann til þess að taka við af Bjarna Guðjónssyni, sem framkvæmdastjóra Knattspyrnufélags Reykjavíkur.” Þórhildur Garðarsdóttir, formaður Knattspyrnufélags Reykjavíkur. Í framhaldi af tilkynningu aðalstjórnar er tilkynning frá knattspyrnudeild KR. Óskar Hrafn Þorvaldsson, yfirmaður knattspyrnumála í KR, hefur að beiðni Pálma Rafns Pálmasonar, þjálfara meistaraflokks, komið inn í þjálfarateymi liðsins og mun hjálpa liðinu í baráttunni sem fram undan er. Óskar Hrafn mun að tímabili loknu taka við starfi þjálfara meistaraflokks karla ásamt því að gegna starfi yfirmanns knattspyrnumála. Kynnt verður um ráðningu yfirþjálfara yngri flokka á næstu misserum. Óskar tekur strax til starfa og verður með liðinu í næsta leik er við sækjum HK menn heim á miðvikudaginn kemur
Lesa meira