FRÉTTIR
- fréttir úr öllum deildum kr -

KR í samstarfi við Pálínu Kroknes hefur ákveðið gefa iðkendum í 8. - 5. flokki karla og kvenna rafrænt eintak af lita- og verkefnahefti sem hún vann að fyrir EM kvenna 2025. Pálína hefur sterkar taugar til félagsins en faðir hennar, Jóhann Króknes Torfason spilaði með meistaraflokki KR 1972 - 1977. Hann spilaði 54 leiki fyrir félagið og skoraði 17 mörk! KR þakkar Pálínu fyrir samstarfið og hvetur iðkendur til að prenta út eintak af bókinni og fylgjast vel með leikjunum á EM í sumar! Iðkendur geta nálgast heftið í gegnum slóð á ABLER! Aðrir áhugasamir geta keypt heftið hér: http://palinakroknes.myshopify.com/

Sunddeild KR hefur skrifað undir samning við Gunnar Egil Benonýsson sem yfirþjálfara sunddeildar KR fyrir næsta tímabil, en Gunnar hefur núna verið ráðinn í fullt starf og mun því einnig sinna skipulagningu deildarinnar, sundmótum og ýmsum öðrum verkefnum fyrir hönd sunddeildar KR ásamt þjálfun afrekshóps. Samningurinn er mikill fengur fyrir deildina og mun styrkja starfið svo um munar. Á myndinni eru Gunnar Egill Benonýsson og Garðar Páll Gíslason, formaður sunddeildar KR að skrifa undir samninginn

Sex ungir KR-ingar léku með um 20 leikmönnum úr unglingalandsliðshópnum á Lekstorps Sommarpool 2025 mótinu í Gautaborg um helgina. Allir keppendurnir kepptu í nokkrum flokkum og unnu allir leiki. Þrír KR-inganna sigruðu í flokki. Lúkas André Ólason vann flokk þeirra sem hafa 1250 stig eða minna. Helena Árnadóttir sigraði í flokki stúlkna með 750 stig eða minna og Viktor Daníel Pulgar var hlutskarpastur í flokki þeirra sem hafa 750 stig eða minna. Á forsíðunni má sjá KR-stúlkurnar á mótinu, þær Guðbjörgu Völu Gunnarsdóttur, Helenu Árnadóttur, Mörtu Dögg Stefánsdóttur og Þórunni Erlu Gunnarsdóttur með liðsfélaga. Myndir teknar af vef Borðtennissambands Íslands og þar má sjá ítarlegri umfjöllun um mótið.

Líkt og seinustu ár mun vera með Handboltaskóla Gróttu/KR í fjórar vikur, 28.júlí - 21.ágúst. Hægt verður að skrá sig á stakar vikur en það er einnig hægt að skrá sig á öll námskeiðin. Öll skráning á námskeiðið fer fram í ABLER. Skólinn er fyrir krakka f. 2014 - 2019 eða þau sem verða í 1. - 6.bekk næsta vetur. Krökkunum verður skipt upp eftir aldri þannig að öll njóti sín sem best. Byrjendur jafnt sem lengra komin eru velkomin. Krakkarnir eru beðnir um að taka með sér nesti. Námskeiðið er frá kl. 9:00-12:00 en við bjóðum upp á gæslu frá kl. 8:00-9:00 og síðan aftur 12:00-13:00. Gæslan kostar 2000kr. Námskeiðið fer fram í Hertz-höllinni á Seltjarnarnesi. Við bjóðum einnig upp á Afreksskóla Gróttu/KR sem er fyrir iðkendur í 7. - 10.bekk næsta vetur, f. 2010 - 2013. Afreksskólinn er kl. 13:00-14:15. Skólastjóri á námskeiðinu er Patrekur Pétursson Sanko en auk hans verða þjálfarar félagsins og góðir gestir.

KR endurtekur leikinn frá því í fyrra og verður með fjölskylduskemmtun í íþróttahúsinu á 17. júní! Dagskráin hefst kl. 10:00 og lýkur 13:00. Það verða hoppukastalar, battavellir og körfuboltaþrautir í húsinu. Þá verður einnig hægt að lita inn í félagsheimili og fá sér candyfloss, popp, vöfflur og kaffi. Arnþór Ingi, fyrrum leikmaður knattspyrnudeildar KR og tónlistarmaður mun svo mæta 11:30 og taka nokkur vel valin lög fyrir börnin! Byrjum daginn í KR með vinum, nágrönnum og liðsfélögum! ÁFRAM KR!!

Héðinn Már Hannesson, ungur maður og mikill KR-ingur sem lék upp alla yngri flokka félagsins er látinn langt fyrir aldur fram aðeins 21 árs gamall. Héðinn Már var afskaplega rólegur og vinalegur drengur og var vel liðinn af liðsfélögum sínum. Hann var fæddur þann 11. júní 2003 og lést þann 21. maí síðast liðinn eftir erfið veikindi. Héðinn Már fór á mörg fótboltamót með yngri flokkum KR, meðal annars á N1 mótið, Goða mótið og til Vestmannaeyja sem og til Svíþjóðar, Spánar og Chicago. Eftir að Héðinn Már hætti í fótbolta tók tónlistin yfir og var hann sjálflærður á gítar, bassa og hljómborð auk þess að vera góður ljóða- og textahöfundur. Hann stofnaði hljómsveitina Marsipan sem var valin hljómsveit fólksins á Músiktilraunum árið 2023. Stutt textabrot úr ljóði eftir Héðin Má: Ég er bara ég Þú ert bara þú. Við getum ekki verið neitt annað. Og ekki gleyma að vera bara til og sjá fegurð í öllu sem er KR sendir fjölskyldu, vinum og aðstandendum Héðins Más innilegar samúðarkveðjur og um leið hvetur alla KR-inga til þess að vera óhrætt að tala um erfiðleika og tilfinningar, innan sem utan vallar og þá sérstaklega unga drengi. Þeir sem hafa tök á geta styrkt Píeta samtökin sem sinna forvarnar-, fræðslu- og meðferðarstarfi gegn sjálfsvígum og sjálfsskaða og styðja við aðstandendur. Reiknisnúmer: 0301-26-041041 Kennitala: 410416-0690 Við stöndum saman öll sem eitt!