FRÉTTIR
- fréttir úr öllum deildum kr -

Taekwondo landsliðsþjálfari Íslands í formum, Allan Olsen, valdi nýtt úrvalslið sem fær leiðsögn og þjálfun hjá landsliðsþjálfara á árinu. Ellefu einstaklingar voru valdir úr stórum hópi í liðið eftir heilan dag af úrtökuæfingum og viðtölum. Þetta er allt efnilegt ungt fólk sem stefnir hátt og mun reyna að komast í landsliðið í framtíðinni. Efnilegasti poomsae keppandi KR, Bjartur Aðalsteinsson var einn þeirra sem komst í liðið og mun því æfa með landsliðinu á þessu ári. Eiga KR-ingar því núna bæði fulltrúa í úrvalsliðunum í formum og bardaga. Við óskum Bjarti til hamingju með þennan áfanga.

Taekwondo landsliðsþjálfari Íslands í bardaga, Rich Fairhurst, valdi nýtt úrvalslið sem fær leiðsögn og þjálfun hjá landsliðsþjálfara á árinu. Sex einstaklingar voru valdir úr stórum hópi í liðið eftir heilan dag af úrtökuæfingum og viðtölum. Þetta er allt efnilegt ungt fólk sem stefnir hátt og mun reyna að komast í landsliðið í framtíðinni. Besta taekwondo-kona KR, Bryndís Eir Sigurjónsdóttir, var ein þeirra sem komst í liðið og mun því æfa með landsliðinu á þessu ári. Eiga KR-ingar því núna bæði fulltrúa í úrvalsliðinu og landsliðinu. Við óskum Bryndísi til hamingju með þennan áfanga.

Knattspyrnudeild KR hefur stofnað til samstarfs við Field Masters Academy, knattspyrnuakademíu í Accra í Gana. Markmið samstarfsins er að styðja við menntun og knattspyrnuiðkun ungra leikmanna, jafnframt því að skapa raunhæfan vettvang fyrir efnilega leikmenn til að stíga sín fyrstu skref í Evrópu. Samstarfssamningur var undirritaður í nýafstaðinni ferð fulltrúa KR til Gana. Field Masters Academy leggur ríka áherslu á skipulagt starf með ungum og efnilegum leikmönnum, bæði hvað varðar knattspyrnu og menntun. Frá akademíunni hafa komið leikmenn sem síðar hafa leikið á Englandi, í Danmörku, á Spáni og í Portúgal. Hluti samstarfsins felst í því að þjálfarar akademíunnar og KR munu eiga í virku samstarfi. Þar á meðal verða heimsóknir til KR þar sem þjálfarar kynnast áherslum félagsins í þjálfun og leikfræði. Þá mun KR einnig koma að því að bæta aðstæður til menntunar og knattspyrnuiðkunar í Gana. Með verkefninu styður KR við mikilvæga starfsemi sem veitir ungum leikmönnum raunhæfan vettvang til skipulagðs íþróttastarfs og skapar tækifæri fyrir þá að elta drauminn um atvinnumennsku í Evrópu. Magnús Orri M. Schram, formaður knattspyrnudeildar KR: „Við hjá KR hlökkum mikið til samstarfsins við Field Masters Academy. Við á Íslandi erum framarlega á mörgum sviðum knattspyrnunnar og með þessu samstarfi getum við miðlað reynslu okkar áfram. Um leið opnum við tækifæri fyrir leikmenn frá Gana til að koma til Íslands og taka þátt í æfingum og keppni. Á næstu dögum munu fyrstu tveir leikmennirnir koma til KR og það er mikilvægt að við tökum vel á móti þeim og styðjum þá í að taka fyrstu skrefin í nýju landi.“

EM í handbolta að hefjast og öllum krökkum boðið að koma á æfingar Íslenska karlalandsliðið stendur í ströngu næstu vikurnar en EM í handbolta er að hefjast. Fyrsti leikur Íslands er gegn Ítölum á föstudaginn kl. 17:00. Í tilefni af EM þá bjóðum við öllum krökkum að koma og prófa handbolta þeim að kostnaðarlausu á meðan EM stendur yfir, 15.janúar - 1.febrúar. Frábæru þjálfararnir okkar taka vel á móti krökkunum. Upplýsingar um þjálfara og æfingatíma má finna á heimasíðu KR en æfingataflan er hérna: https://www.kr.is/handbolti Ef það eru einhverjar spurningar, ekki hika við að hafa samband við Andra yfirþjálfara ( andri.sigfusson@reykjavik.is ).











