KNATTSPYRNA

FRÉTTIR

Fréttir frá knattspyrnudeild KR

28. apríl 2025
Birgir Guðjónsson, góður vinur, leikmaður og félagi í starfinu fyrir gamla góða KR er látinn. Birgir var fæddur 16. apríl 1957, en lést að morgni 24. apríls sl. á líknardeild Landsspítalans. Hann var af traustum KR-ættum, dóttursonur Kristjáns L. Gestssonar formanns KR um árabil og eins helsta leiðtoga félagsins á fyrri hluta síðustu aldar. Birgir stundaði knattspyrnuæfingar hjá KR frá unga aldri og upp yngri flokkana. Hann þótti snemma efnilegur knattspyrnumaður enda hafði hann ekki langt að sækja hæfileikana. Birgir lék fyrstu leiki sína í meistaraflokki sumarið 1976 og átti síðan nokkuð fast sæti á miðjunni í liðinu næstu árin fram á sumarið 1983, þegar hann lagði skóna á hilluna í kjölfar meiðsla. Það má segja að Birgir hafi verið einn af lykilleikmönnum meistaraflokks KR í kringum 1980. Birgir lék alls 133 leiki með meistaraflokki KR (89 í Íslandsmóti), og skoraði hann í þeim 14 mörk, (11 í Íslandsmóti). KR-liðið var ekki sigursælt á þessum árum en framlag Birgis skipti miklu máli fyrir KR til að halda sjó í harðri baráttu fyrir stöðu félagsins á Íslandsmótinu. Birgir hélt áfram að hafa afskipti af knattspyrnunni í KR eftir að leikmannsferli hans lauk. Hann sat í meistaraflokksráði og síðan í stjórn knattspyrnudeildarinnar sem ritari á árunum 1991-1993 og lagði hjartað í störf sín fyrir KR. Þegar KR sleppti, þá var stærðfræðikennsla í Menntaskólanum í Reykjavík hans ær og kýr. Hann þjónaði nemendum MR dyggilega á því sviði um langt árabil.  Undanfarin 2 ár reyndust Birgi erfið, glíma við alvarleg veikindi tók á. Viljinn til sigurs í þeirri glímu var mikill – en fyrir rest hafði óvinurinn betur. Birgir var kvæntur Guðrúnu Þórhallsdóttur, dósent í íslenskri málfræði, og eiga þau eina dóttur, Ragnheiði. KR sendir Guðrúnu og fjölskyldu hugheilar samúðarkveðjur á þessari erfiðu stundu. Megi góður guð vera með ykkur.
23. apríl 2025
Lúðvík Gunnarsson, landsliðsþjálfari U16 karla, hefur valið Alexander Rafn Pálmason og Sigurð Breka Kárason í leikmannahóp til þátttöku í UEFA Development móti sem fram fer í Svíþjóð dagana 1.–7.maí næstkomandi. Liðið æfir á Íslandi þriðjudaginn 29. apríl og miðvikudaginn 30. apríl áður en haldið er til Svíþjóðar þann 1. maí. Hópurinn sem fer út.
16. apríl 2025
Aðalfundur Knattspyrnufélags Reykjavíkur verður haldinn í félagsheimilinu þriðjudaginn 29. apríl kl. 17:00. Á dagskrá eru hefðbundin aðalfundarstörf, skv lögum félagsins. Framboðsfrestur til stjórnar er til miðnættis 24. apríl nk., framboðum skal skila til framkvæmdarstjóra félagsins, Pálma Rafns Pálmasonar, palmi@kr.is
11. apríl 2025
Aldís Ylfa Heimisdóttir landsliðsþjálfari U16 kvenna, hefur Köru Guðmundsdóttur í hóp sem tekur þátt í development móti sem haldið verður í Eistlandi dagana 28.apríl til 5. maí.  Hópinn í heild má sjá hér: https://www.ksi.is/.../Hopur-U16-kvenna-fyrir-UEFA.../
7. apríl 2025
Hér að neðan eru niðurstöður happdrættis á stuðnignsmannakvöldi KR klúbbsins frá því á föstudaginn. Vinninga má nálgast á skrifstofu fjármálastjóra félagsins, frá kl. 9-16. Vonandi var heppnin með þér - Vinningaskrá
31. mars 2025
Þeim fækkar jafnt og þétt þeim sem á lífi eru og léku með gullaldarliði KR frá árunum kringum 1960. Nú síðast er það Garðar Árnason sem kvaddi okkur, Garðar var fæddur 6. janúar 1938. Hann hóf ungur að æfa knattspyrnu með KR og þótti efnilegur. Garðar lék sína fyrstu leiki með meistaraflokki árið 1957, og átti fast sæti í liðinu frá 1958 til og með 1963, yfirleitt á miðjunni, og stýrði henni gjarnan eins og herforingi, Garðar lék alls 97 leiki með meistaraflokki KR, og skoraði í þeim 3 mörk. Meðal annars lék hann alla leikina 10 með liðinu frækna sem vann Íslandsmótið 1959 með fullu húsi stiga, þegar leikin var tvöföld umferð í fyrsta skiptið. Garðar varð þrisvar sinnum Íslandsmeistari með KR: 1959, 1961 og 1963. Sömuleiðis varð hann þrisvar sinnum bikarmeistari: 1961, 1962 og 1963. Garðar lék alls 11 landsleiki fyrir Ísland á árunum 1959-1963, og skoraði í þeim 1 mark – jöfnunarmarkið í 1:1 leiknum gegn Írum 1962. Hann átti nánast fast sæti í landsliðinu á þessum árum, ef hann var heill. Garðar var aðeins 25 ára þegar hann lagði skóna á hilluna haustið 1963. Það var mikil eftirsjá af því, enda var hann einn albesti knattspyrnumaður Íslands á þeim tíma. Á knatttspyrnuvellinum lét Garðar mikið að sér kveða en utan hans fór ekki mikið fyrir honum. Hann starfaði lengi sem verkamaður, m.a. við höfnina, en síðan hjá Borginni við ýmis störf, mest í Laugardalnum. Undir lokin dvaldi hann á hjúkrunarheimilinu Höfða á Akranesi, þar sem hann naut góðrar aðhlynningar og lést þar þann 20. mars sl. Útför Garðars fór fram í kyrrþey. Blessuð sé minning Garðars Árnasonar.
25. mars 2025
Knattspyrnudeild KR og Bílaleiga Akureyrar hafa gert nýjan samstarfssamning til næstu þriggja ára. Langvinnt og farsælt samstarf heldur áfram sem er mikilvægt fyrir afreksstarf félagsins.  Við hvetjum KR-inga til að beina viðskiptum sínum til Bílaleigu Akureyrar.
17. mars 2025
Nú styttist heldur betur í að fótboltinn fari af stað, aðeins þrjár vikur í fyrsta leik tímabilsins í Bestu deildinni. Við erum tilbúin og kortin okkar eru komin í sölu. Vertu með okkur í sumar og styðjum okkar lið í bíðu og stríðu - Við erum KR. Miðasala er hafin hér Hlökkum til sumarsins með ykkur - sjáumst á vellinum!
17. mars 2025
Margrét Magnúsdóttir landsliðsþjálfari U15 kvenna hefur valið KR-inginn Rögnu Láru Ragnarsdóttur til æfinga dagana 18.-19. mars 2025. Æfingarnar fara fram í Miðgarði, Garðabæ. Hópinn í heild má sjá hér
10. mars 2025
Aldís Ylfa Heimisdóttir landsliðsþjálfari U16 kvenna, hefur valið Köru Guðmundsdóttur og Rakel Grétarsdóttur til æfinga dagana 18. og 19. mars nk.. Æfingarnar fara fram í Miðgarði, Garðabæ.
Lesa meira