BORÐTENNIS
FRÉTTIR

Guðbjörg Vala Gunnarsdóttir keppir fyrir Íslands hönd á Ólympíuhátíð Evrópuæskunnar, sem fram fer í Skopje í Norður-Makedóníu 20.-26. júlí. Auk Guðbjargar keppir Kristján Ágúst Ármann, BH í borðtenniskeppni leikanna. Ingimar Ingimarsson er þjálfari með krökkunum. Guðbjörg Vala keppir í einliðaleik stúlkna og þau Kristján spila saman í tvenndarleik. Tæplega 50 keppendur á aldrinum 14-18 ára taka þátt í leikunum fyrir Íslands hönd og keppa í sjö íþróttagreinum. Hér má fylgjast með úrslitum á leikunum: SCHEDULE AND RESULTS – Skopje 2025 – Sport Europe

Þrír KR-ingar leika með unglingalandsliðinu á EM unglinga í borðtennis, sem fram fer 11.-20. júlí í Ostrava í Tékklandi. Þær Guðbjörg Vala Gunnarsdóttir og Helena Árnadóttir skipa lið meyja 15 ára og yngri. Lúkas André Ólason er einn liðsmanna Íslands í liði sveina 15 ára og yngri. Gestur Gunnarsson, þjálfari úr KR er annar þjálfaranna sem er með liðinu í Ostrava. Forsíðumyndin sýnir hópinn sem keppir í liðakeppni fyrir Íslands hönd. Myndin á þessari síðu sýnir Guðbjörgu Völu og Helenu fagna sigri í tvíliðaleik gegn sterku grísku pari. Báðar myndir eru teknar af vef BTÍ.

Sex ungir KR-ingar léku með um 20 leikmönnum úr unglingalandsliðshópnum á Lekstorps Sommarpool 2025 mótinu í Gautaborg um helgina. Allir keppendurnir kepptu í nokkrum flokkum og unnu allir leiki. Þrír KR-inganna sigruðu í flokki. Lúkas André Ólason vann flokk þeirra sem hafa 1250 stig eða minna. Helena Árnadóttir sigraði í flokki stúlkna með 750 stig eða minna og Viktor Daníel Pulgar var hlutskarpastur í flokki þeirra sem hafa 750 stig eða minna. Á forsíðunni má sjá KR-stúlkurnar á mótinu, þær Guðbjörgu Völu Gunnarsdóttur, Helenu Árnadóttur, Mörtu Dögg Stefánsdóttur og Þórunni Erlu Gunnarsdóttur með liðsfélaga. Myndir teknar af vef Borðtennissambands Íslands og þar má sjá ítarlegri umfjöllun um mótið.