BORÐTENNIS
FRÉTTIR

Guðbjörg Vala Gunnarsdóttir keppir fyrir Íslands hönd á Ólympíuhátíð Evrópuæskunnar, sem fram fer í Skopje í Norður-Makedóníu 20.-26. júlí. Auk Guðbjargar keppir Kristján Ágúst Ármann, BH í borðtenniskeppni leikanna. Ingimar Ingimarsson er þjálfari með krökkunum. Guðbjörg Vala keppir í einliðaleik stúlkna og þau Kristján spila saman í tvenndarleik. Tæplega 50 keppendur á aldrinum 14-18 ára taka þátt í leikunum fyrir Íslands hönd og keppa í sjö íþróttagreinum. Hér má fylgjast með úrslitum á leikunum: SCHEDULE AND RESULTS – Skopje 2025 – Sport Europe

Þrír KR-ingar leika með unglingalandsliðinu á EM unglinga í borðtennis, sem fram fer 11.-20. júlí í Ostrava í Tékklandi. Þær Guðbjörg Vala Gunnarsdóttir og Helena Árnadóttir skipa lið meyja 15 ára og yngri. Lúkas André Ólason er einn liðsmanna Íslands í liði sveina 15 ára og yngri. Gestur Gunnarsson, þjálfari úr KR er annar þjálfaranna sem er með liðinu í Ostrava. Forsíðumyndin sýnir hópinn sem keppir í liðakeppni fyrir Íslands hönd. Myndin á þessari síðu sýnir Guðbjörgu Völu og Helenu fagna sigri í tvíliðaleik gegn sterku grísku pari. Báðar myndir eru teknar af vef BTÍ.

Sex ungir KR-ingar léku með um 20 leikmönnum úr unglingalandsliðshópnum á Lekstorps Sommarpool 2025 mótinu í Gautaborg um helgina. Allir keppendurnir kepptu í nokkrum flokkum og unnu allir leiki. Þrír KR-inganna sigruðu í flokki. Lúkas André Ólason vann flokk þeirra sem hafa 1250 stig eða minna. Helena Árnadóttir sigraði í flokki stúlkna með 750 stig eða minna og Viktor Daníel Pulgar var hlutskarpastur í flokki þeirra sem hafa 750 stig eða minna. Á forsíðunni má sjá KR-stúlkurnar á mótinu, þær Guðbjörgu Völu Gunnarsdóttur, Helenu Árnadóttur, Mörtu Dögg Stefánsdóttur og Þórunni Erlu Gunnarsdóttur með liðsfélaga. Myndir teknar af vef Borðtennissambands Íslands og þar má sjá ítarlegri umfjöllun um mótið.

Lokamót Butterfly unglingamótaraðar HK og Pingpong.is var haldið í Kópavogi laugardaginn 3. maí. Til mótsins var boðið stigahæstu leikmönnunum á þremur mótum mótaraðarinnar yfir veturinn. Keppt var í tveimur stúlknaflokkum og fjórum drengjaflokkum. Guðbjörg Vala Gunnarsdóttir sigraði í flokki meyja 14-15 ára eftir hörkuleik við Helenu Árnadóttur, sem lauk í oddalotu. KR sigraði því tvöfalt í meyjaflokki. Lúkas André Ólason vann flokk pilta 12-13 ára og lagði Dawid May-Majewski úr BH 3-0 í úrslitaleik. Aðrir verðlaunahafar úr KR voru Klara Lind Hreiðarsdóttir, sem varð önnur í flokki táta 11 ára og yngri, og Viktor Daníel Pulgar, sem fékk brons í flokki sveina 14-15 ára. Myndir teknar úr myndasafni BTÍ frá Íslandsmóti unglinga 2025.