TAEKWONDO
FRÉTTIR
Fréttir

Íþróttamaður KR, Guðmundur Flóki Sigurjónsson, hefur verið að standa sig vel í fullorðinsflokki þrátt fyrir að vera enn gjaldgengur í unglingaflokki. Hann keppir núna í -80 kg flokki og er kominn í 82. sæti heimslistans. Í október verður haldið heimsmeistaramót og fer það fram í Wuxi í Kína og var Guðmundur Flóki valinn til að keppa þar fyrir hönd íslenska landsliðsins ásamt þeim Leo Anthony Speight og Ingibjörgu Erlu Grétarsdóttur, en Richard Fairhurst landsliðsþjálfari tilkynnti þetta á dögunum. Glæsilegt upphafs ár í keppni í fullorðinsflokki hjá okkar manni. Hlökkum til að sjá hvernig gengur á HM!

Aðalfundur Knattspyrnufélags Reykjavíkur verður haldinn í félagsheimilinu þriðjudaginn 29. apríl kl. 17:00. Á dagskrá eru hefðbundin aðalfundarstörf, skv lögum félagsins. Framboðsfrestur til stjórnar er til miðnættis 24. apríl nk., framboðum skal skila til framkvæmdarstjóra félagsins, Pálma Rafns Pálmasonar, palmi@kr.is

Um liðna helgi fór fram alþjóðlegt taekwondomót í Slóveníu. Keppendur voru 800 talsins og þeirra á meðal margt fremsta keppnisfólk Evrópu. Íslenska landsliðið í sparring var meðal þátttakenda, og einn þeirra er Vesturbæingurinn Guðmundur Flóki Sigurjónsson. Með þeim í för var nýr landsliðsþjálfari, Bretinn Rich Fairhurst. Guðmundur Flóki færði sig nýlega upp í -78 kg flokk unglinga og keppti í honum um helgina. Í átta manna úrslitum sigraði Guðmundur Flóki sterkan keppanda frá Ungverjalandi 2-0. Í undanúrslitum var það svo öflugur keppandi frá Króatíu sem varð að láta í minni pokann 2-1 fyrir Guðmundi Flóka, sem gerði sér svo lítið fyrir og sigraði einnig keppanda frá Bosníu í úrslitum 2-0 og landaði þar með gullinu. Guðmundur Flóki er efnilegasti junior keppandi landsins og sá Íslendingur sem unnið hefur flestar alþjóðlegar junior E-medalíur, en eftirsóttustu mótin í unglingaflokki eru E-mót, sem gefa stig á Evrópulistanum. Ásamt því að vera fremstur í sínum flokki á Íslandi er Guðmundur Flóki einn af þjálfurum taekwondodeildar KR. Guðmundur er frábær fyrirmynd fyrir unga taekwondo iðkendur.

Knattspyrnufélag Reykjavíkur er 126 ára í dag og því við hæfi að taka fyrstu skóflustungu af fjölnotaíþróttahúsi félagsins, sem við höfum beðið svo lengi eftir. Það voru iðkendur úr deildum félagsins sem tóku fyrstu skóflustunguna ásamt Þórhildi Garðarsdóttur, formanni KR, Einari Þorsteinssyni Borgarstjóra, Skúli Helgasyni formanni menningar- og íþróttaráðs Reykjavíkur og Árna Geir Magnússyni formanni byggingarnefndar félagsins. Við munum fljótlega setja inn upplýsingar um byggingafasa hússins og upplýsa ykkur um stöðuna reglulega fram að vígslu. Til hamingju með daginn allir KR-ingar

Nú um helgina hélt landsliðsmaðurinn í taekwondo og KR-ingurinn Guðmundur Flóki Sigurjónsson á sterkt mót í Rúmeníu, Balkan Open. Þetta var síðasta alþjóðlega mótið á dagskrá þetta árið og er skemmst frá því að segja að okkar maður sigraði sinn flokk með öruggum hætti og er þetta besti árangur sem Íslendingur hefur náð í junior flokki síðan árið 2017. Við óskum honum til hamingju með árangurinn og góðs gengis í jólaprófunum sem hófust strax að lokinni keppni. Hlýtur að teljast góður undirbúningur fyrir líkama og sál að koma heim með gull. Þetta var ekki fyrsta keppnisferðin erlendis á þessu ári hjá Guðmundi Flóka en með honum í för var Anton Tristan Atlason Lira en hann fór þarna á sitt fyrsta mót erlendis. Anton keppir í cadet flokki og komst þar á pall með brons. Gott fyrsta skref en hann stefnir alltaf hærra.

Lagningu nýs gervigrass er nú lokið og aðeins verið að ganga frá síðustu smáatriðum. Það er því ljóst að æfingar geta loks hafist síðar í vikunni. Gríðarlegt umbótamál fyrir KR, enda ljóst misserum saman að gamla gervigrasið var langt í frá fullnægjandi og í raun ónýtt. Mikilvægum áfanga í framkvæmdamálum Knattspyrnufélagsins náð. Öðrum gríðarlega mikilvægum áfanga var sömuleiðis náð í þessari viku þegar nýtt fjölnota íþróttahús KR var boðið út á Evrópska efnahagssvæðinu. Nýja húsið verður næstum 7000 fermetrar að stærð. Það er því loksins komin alvöru hreyfing á framkvæmdamál Knattspyrnufélagsins sem er mikið fagnaðarefni. Stjórn og starfsmenn félagsins munu að sjálfsögðu halda áfram að fylgja framkvæmdamálunum eftir, því enn er því miður langt í land að aðstaðan verði með þeim hætti að við getum vel við unað – en þangað stefnum við að sjálfsögðu. Þórhildur Garðarsdóttir Formaður Knattspyrnufélags Reykjavíkur