TAEKWONDO
FRÉTTIR
Fréttir

Bryndís Eir Sigurjónsdóttir sigraði svartbeltis junior flokk kvenna í bardaga á bikarmóti Taekwondosambands Íslands í október og var í kjölfarið valin kona mótsins. Glæsilegur árangur hjá Bryndísi. Taekwondosamband Íslands hélt fyrsta bikarmót vetrarins nú um daginn og var venju samkvæmt keppt í bæði formum og bardaga. KR-ingar sendu 18 keppendur til leiks en mótið fór fram á heimavelli ÍR-inga. Helmingur KR-inga keppti í minior flokki sem er fyrir 11 ára og yngri og stóðu þau sig öll með stakri prýði í báðum keppnisgreinum. Í cadet (12-14 ára) og junior (15-17 ára) flokkum er svo keppt um sæti og þar sigruðu Prasun og Bjartur sína flokka í poomsae (form), Daníel fékk silfur en Ari og Bryndís fengu brons á poomsae deginum. Þetta skilaði félaginu 15 stigum og 5. sæti af 8 félögum fyrir þennan hluta mótsins. Í bardaga fengu Prasun, Þorlákur og Bryndís gull í sínum flokkum, Kári, Ómar og Kiljan silfur og Ari brons. Þetta skilaði félaginu 29 stigum og öðru sæti fyrir bardagahluta mótsins en eins og áður sagði hlaut Bryndís líka viðurkenningu sem kona mótsins. Glæsilegur árangur og góðs viti fyrir keppnisveturinn.

Um síðustu helgi hélt Taekwondosamband Íslands Íslandsmót í poomsae og áttu við KR-ingar sex fulltrúa á mótinu. Ólafur, Snævar og Daníel kepptu á sínu fyrsta Íslandsmóti, í C flokki 12-14 ára og stóðu sig með prýði í einstaklingskeppni en í liðakeppni tóku þeir höndum saman og enduðu í öðru sæti og fóru því heim með silfur. Góð byrjun þar og eiga vonandi eftir að halda áfram að keppa saman. Prasun keppt í B flokki 12-14 ára og rétt varð af gullinu en endaði með öruggt og gott silfur. Þá keppti Bjartur í B flokki 15-17 ára þar sem hann var í sömu aðstæðum og Prasun og endaði líka með silfur. Saman kepptu þeir svo í parakeppni í 15-17 ára flokki B og fóru þar með sigur af hólmi og hampa því Íslandsmeistaratitli í parakeppni. Við óskum þeim til hamingju með titilinn!

Íþróttamaður KR, taekwondo kappinn Guðmundur Flóki Sigurjónsson, fór til Póllands nú um helgina á sterkt bardagamót – Polish Open. Keppendur voru um 1000 á mótinu. Guðmundur Flóki var í 18 manna flokki, undir 80 kg senior, og taldist tíundi sterkasti keppandinn í flokknum út frá stigafjölda á heimslista, því sat hann hjá í fyrstu umferð. Í 16 manna úrslitum mætti hann silfurverðlaunahafa frá síðasta heimsmeistaramóti í junior flokki og sigraði örugglega í tveimur lotum. Næst mætti hann mjög sterkum úkraínskum keppanda sem er núna í 9. sæti heimslistans og sigraði 2-1 og komast þannig inn í undanúrslit. Þar mætti hann Azerbajan, sigraði og var þar með kominn í sjálfan úrslitabardagann. Úrslitabardaginn var á móti Króatískum keppanda, Oscar Kovacic sem var skráður sem sterkasti keppandinn í flokknum og er í fimmta sæti heimslistans. Flóki vann fyrstu lotu en Króatinn kom til baka í annarri lotu og jafnaði metinn. Úrslitabardagi og úrslitalota, hér koma sterkar taugar að góðum notum! Guðmundur Flóki sýndi hvað í honum býr og tryggði sér öruggan sigur í síðustu lotunni og gullið komið í hús. Við óskum gulldregnum innilega til hamingju og óskum honum um leið góðs gengis á HM sem fer fram í Kína í næsta mánuði!

Íþróttamaður KR, Guðmundur Flóki Sigurjónsson, hefur verið að standa sig vel í fullorðinsflokki þrátt fyrir að vera enn gjaldgengur í unglingaflokki. Hann keppir núna í -80 kg flokki og er kominn í 82. sæti heimslistans. Í október verður haldið heimsmeistaramót og fer það fram í Wuxi í Kína og var Guðmundur Flóki valinn til að keppa þar fyrir hönd íslenska landsliðsins ásamt þeim Leo Anthony Speight og Ingibjörgu Erlu Grétarsdóttur, en Richard Fairhurst landsliðsþjálfari tilkynnti þetta á dögunum. Glæsilegt upphafs ár í keppni í fullorðinsflokki hjá okkar manni. Hlökkum til að sjá hvernig gengur á HM!

Aðalfundur Knattspyrnufélags Reykjavíkur verður haldinn í félagsheimilinu þriðjudaginn 29. apríl kl. 17:00. Á dagskrá eru hefðbundin aðalfundarstörf, skv lögum félagsins. Framboðsfrestur til stjórnar er til miðnættis 24. apríl nk., framboðum skal skila til framkvæmdarstjóra félagsins, Pálma Rafns Pálmasonar, palmi@kr.is

Um liðna helgi fór fram alþjóðlegt taekwondomót í Slóveníu. Keppendur voru 800 talsins og þeirra á meðal margt fremsta keppnisfólk Evrópu. Íslenska landsliðið í sparring var meðal þátttakenda, og einn þeirra er Vesturbæingurinn Guðmundur Flóki Sigurjónsson. Með þeim í för var nýr landsliðsþjálfari, Bretinn Rich Fairhurst. Guðmundur Flóki færði sig nýlega upp í -78 kg flokk unglinga og keppti í honum um helgina. Í átta manna úrslitum sigraði Guðmundur Flóki sterkan keppanda frá Ungverjalandi 2-0. Í undanúrslitum var það svo öflugur keppandi frá Króatíu sem varð að láta í minni pokann 2-1 fyrir Guðmundi Flóka, sem gerði sér svo lítið fyrir og sigraði einnig keppanda frá Bosníu í úrslitum 2-0 og landaði þar með gullinu. Guðmundur Flóki er efnilegasti junior keppandi landsins og sá Íslendingur sem unnið hefur flestar alþjóðlegar junior E-medalíur, en eftirsóttustu mótin í unglingaflokki eru E-mót, sem gefa stig á Evrópulistanum. Ásamt því að vera fremstur í sínum flokki á Íslandi er Guðmundur Flóki einn af þjálfurum taekwondodeildar KR. Guðmundur er frábær fyrirmynd fyrir unga taekwondo iðkendur.

Knattspyrnufélag Reykjavíkur er 126 ára í dag og því við hæfi að taka fyrstu skóflustungu af fjölnotaíþróttahúsi félagsins, sem við höfum beðið svo lengi eftir. Það voru iðkendur úr deildum félagsins sem tóku fyrstu skóflustunguna ásamt Þórhildi Garðarsdóttur, formanni KR, Einari Þorsteinssyni Borgarstjóra, Skúli Helgasyni formanni menningar- og íþróttaráðs Reykjavíkur og Árna Geir Magnússyni formanni byggingarnefndar félagsins. Við munum fljótlega setja inn upplýsingar um byggingafasa hússins og upplýsa ykkur um stöðuna reglulega fram að vígslu. Til hamingju með daginn allir KR-ingar

Nú um helgina hélt landsliðsmaðurinn í taekwondo og KR-ingurinn Guðmundur Flóki Sigurjónsson á sterkt mót í Rúmeníu, Balkan Open. Þetta var síðasta alþjóðlega mótið á dagskrá þetta árið og er skemmst frá því að segja að okkar maður sigraði sinn flokk með öruggum hætti og er þetta besti árangur sem Íslendingur hefur náð í junior flokki síðan árið 2017. Við óskum honum til hamingju með árangurinn og góðs gengis í jólaprófunum sem hófust strax að lokinni keppni. Hlýtur að teljast góður undirbúningur fyrir líkama og sál að koma heim með gull. Þetta var ekki fyrsta keppnisferðin erlendis á þessu ári hjá Guðmundi Flóka en með honum í för var Anton Tristan Atlason Lira en hann fór þarna á sitt fyrsta mót erlendis. Anton keppir í cadet flokki og komst þar á pall með brons. Gott fyrsta skref en hann stefnir alltaf hærra.







